Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, ræddi um fyrirsjáanlegan alvarlegan kennaraskort við stjórnendur innan Háskóla Íslands á dögunum, þar á meðal Jón Atla Benediktsson rektor, en sérstök umræða stendur nú yfir á Alþingi um stöðu kennarastéttarinnar.
Þetta kom fram í máli Kristjáns Þórs á Alþingi í dag. Málshefjandi var Bjarkey Olsen, þingmaður Vinstri grænna, og beindi hún spurningum til Kristjáns Þórs.
Allir sammála
Þingmenn allra flokka lýst yfir áhyggjum sínum af stöðu mála, en fyrirsjáanlegt er að mikill skortur verði á menntuðum kennurum á næstu árum. Nemendum í kennaranámi hefur fækkað um 600 á árabilinu 2009 til 2015, sem er hlutfallslega mun meira en í flestum öðrum greinum, að því er Pawel Bartozsek, þingmaður Viðreisnar, benti á í ræðu sinni.
Á skömmum tíma þá hefur brottfall menntaðra kennara úr stéttinni aukist umtalsvert, og benti Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á að nauðsynlegt væri að bregðast við þessari stöðu, og þar ættu allir hlutir kennarastarfsins að vera undir. Launamál, starfsaðstaða og kröfur sem gerðar væru til kennara.
Bjarkey kallaði eftir því að stjórnvöld köfuðu ofan í þennan „alvarlega vanda“ og spurði til hvaða aðgerða hefði verið gripið. „Þetta snýst um virðingu fyrir kennarastarfinu,“ sagði Bjarkey.
Bjarni Halldór Janusson, varaþingmaður Viðreisnar, sagði að eitt mikilvægasta atriðið, þegar kæmi að kennarastarfinu, væri að auka sálfræðiþjónustu innan skólana til að minnka álag á kennarana, og auka faglega aðstoð við nemendur. Samhliða öðrum aðgerðum væri þetta mjög mikilvægt og stórt mál.
Ekki nýr vandi
Kristján Þór sagði vandann ekki nýjan af nálinni, og sagði ráðuneyti hans vera að kortleggja málið og að starfshópur væri að störfum, sem væri í virkri vinnu í þessum efnum. Mikilvægt væri að halda áfram í þeirri vinnu, sem byggði á samstarfi við Kennarasamband Íslands og sveitarfélög í landinu.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, frá því í febrúar á þessu ári, kemur fram að erfitt sé að fullyrða um ástæður minnkandi aðsóknar í kennaranám en þó er talið ljóst „að launa- og starfskjör kennara geta haft veruleg áhrif á aðsókn í námið“ og að lenging kennaranáms frá þremur í fimm ár hafi einnig haft sitt að segja. Þá hefur efnahagsástandið áhrif á aðsókn í háskólanám almennt
„Síðustu ár hefur efnahagsástand hér á landi farið batnandi og samhliða því hefur dregið verulega úr nýskráningum í Háskóla Íslands,“ segir í skýrslunni.
Kristján Þór sagði loka seinni ræðu sinnar, í umræðum um málið í dag, að hann væri ekki að fullyrða það, að lenging námsins hefði leitt til þess að mun minni aðsókn væri í námið nú en áður, en það þyrfti þó að skoða allar hliðar málsins. Þar á meðal væri hvort það mætti með einhverjum ráðum fjölga kennurum með því að horfa í námskröfur. Einnig þyrfti að taka tillit til þess að staðan væri misjöfn eftir sveitarfélögum. Þannig væri staðan nokkuð góð víða, og nefndi hann meðal annars Akureyri sem dæmi í því samhengi.
Sagði hann að skoða þyrfti hvað væri verið að gera rétt og hvað rangt, bæði innan einstakra sveitarfélaga, og í menntakerfinu almennt.