Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur styrkst töluvert að undanförnu og hefur frekari losun fjármagnshafta, frá því í síðasta mánuði, engin áhrif haft til veikingar. Þvert á móti hefur gengi krónunnar frekar styrkst.
Bandaríkjadalur kostar nú 106 krónunnar en fyrir um einu og hálfi ári kostaði hann tæplega 140 krónur. Evran kostar nú 116 krónur, en var á 150 krónur fyrir einu og hálfi ári.
Sé horft til undanfarinna tólf mánaða þá hefur gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal styrkst um 13,6 prósent en evru um 16,6 prósent.
Þessi styrking hefur valdið útflutningsfyrirtækjum töluverðum erfiðleikum, og hafa Samtök ferðaþjónustunnar sérstaklega minnst á að þessi gengisþróun sé mörgum fyrirtækjum erfið.
Ein meginástæða þess að gengið hefur verið að styrkjast er mikið gjaldeyrisinnstreymi frá ferðamönnum sem sækja landið heim, og eyða peningum í vörur og þjónustu. Talið er að heildarfjöldi ferðamanna á þessu ári verði að minnsta kosti 2,3 milljónir en í fyrra var fjöldinn 1,8 milljónir.
Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna má gera ráð fyrir að gjaldeyristekjur þjóðarbússins vegna ferðaþjónustunnar á þessu ári verði yfir 500 milljarðar króna. Sökum þessa mikla innstreymis gæti krónan haldið áfram að styrkjast gagnvart helstu viðskiptamyntum. Seðlabanki Íslands hefur þó beitt sér þannig á gjaldeyrismarkaði, á undanförnu ári, að hann hefur frekar unnið gegn hraðri styrkingu með inngripum. Þrátt fyrir þessi inngrip bankans á markaði, þá hefur krónan haldið áfram að styrkjast.