Launavísitala hækkaði í mars um 0,4 prósent frá því í febrúar að því er fram kemur í nýuppfærðum upplýsingum Hagstofunnar sem birtar voru í dag. Kaupmáttur launa hækkaði einnig á milli mánaða, um 0,3 prósent frá því í febrúar.
Umreiknuð árshækkun launavísitölunnar í mars var fimm prósent og hefur ekki verið lægri síðan í apríl árið 2014 þegar hún var 4,8 prósent. Tólf mánaða launahækkun hefur mest verið 13,4 prósent í apríl í fyrra en síðan hefur hallað undan fæti og nú hækka laun þess vegna hægar en þau hafa gert síðan árið 2014.
Sé þróun vísitalnanna skoðuð frá aldamótum sést að kaupmáttarvísitalan hefur aldrei verið hærri, miðað við viðmiðunarárið 1989. Síðan árið 2010 hefur kaupmáttur launa hækkað stöðugt ár frá ári og náði nýjum hæðum árið 2016.
Ársmeðaltal kaupmáttar launa 2001-2016
Þróun launavísitölunnar hefur nær eingöngu verið uppávið miðað við viðmiðunarárið 1989. Ekki má greina jafn glögglega áhrif efnahagshrunsins 2008 í línuritinu hér að neðan eins og í vísitölu kaupmáttarins.
Vísitala launa janúar 2000-mars 2017
Launavísitalan byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofunnar og sýnir breytingar á verði vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma. Vísitalan mælir þess vegna laun sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma en ekki tilfallandi yfirvinnu eða óreglulegar greiðslur.
Hagstofan byggir vísitölu kaupmáttar á launavísitölu og vísitölu neysluverðs. „Almennt eykst kaupmáttur launa þegar laun hækka umfram verðlag en minnkar þegar verðbólga er meiri en launahækkanir. Hafa þarf í huga að kaupmáttur launa er annar en kaupmáttur ráðstöfunartekna,“ segir á vef Hagstofunnar.