Hlutafé í útgáfufélagi Morgunblaðsins verður aukið um 400 milljónir króna á næstu vikum, samkvæmt heimildum Markaðarins í dag. Fjölmiðlanefnd uppfærði upplýsingar um eignarhald á útgáfufélaginu 18. apríl síðastliðinn.
Eyþór Arnalds, fjárfestir og fyrrverandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg, keypti nýverið 26,62 prósent hlut í Þórsmörk ehf, einkahlutafélaginu sem á nær allt hlutafé í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um kaupverð á hlutnum, en Eyþór keypti hlutinn af þremur fyrirtækjum: Samherja, Vísi og Síldarvinnslunni.
Eyþór varð með kaupunum stærsti einstaki eigandi Árvakurs. Félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut.
Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,38 prósent hlut. Auk þess á félagið Legalis 12,37 prósent hlut. Eigendur þess eru m.a. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs og stjórnarmaður í Ísfélaginu, og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins. Samanlagður hlutur þessarar blokkar í Árvakri er 42,18 prósent. Gunnlaugur Sævar er einnig eigandi að hlut í Lýsi ehf., sem á 1,97 prósent hlut í Árvakri. Bæði Gunnlaugur Sævar og Sigurbjörn sitja í stjórn þess fyrirtækis.
Aðrir eigendur eru að mestu aðilar tengdir íslenskum sjávarútvegi. Á meðal Þeirra eru Kaupfélag Skagfirðinga, Rammi hf. og Skinney-Þinganes.
Eyþór vildi ekki tjá sig við Markaðinn en benti á að forkaupsréttur annarra hluthafa á bréfum fyrirtækjanna þriggja sem hann keypti eignarhlut sinn af væri enn virkur. Samkvæmt því sem fram kemur í Markaðinum þá er hlutafjáraukningin vel á veg komin núverandi eigendur Árvakurs taka þátt í henni.
Árvakur hefur tapað 1,5 milljarði króna frá því að nýir eigendur tóku við félaginu 2009 og fram til loka árs 2015. Á þeim tíma hafa þeir eigendur sett að minnsta kosti 1,2 milljarða króna í rekstur félagsins og fengið 4,5 milljarða króna afskrifaða hjá Íslandsbanka. Tap Árvakurs var 164 milljónir króna á árinu 2015.
Ársreikningur fyrir árið 2016 hafði ekki verið birtur 18. apríl en Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og ritstjóri Morgunblaðsins, sagði í tilkynningu í fyrrahaust að líkur væru á hallarekstri á árinu 2016 líka. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var hlutafé Árvakurs aukið um 7,4 prósent í nóvember í fyrra og hækkunin öll greidd með peningum.