Ríkið hefur litið svo á að eðlilegt sé að ríkið svari ákalli um viðræður um kaup á lóðum ríkisins án auglýsingar, ef umræddar lóðir eru innan marka skipulagsvalds sveitarfélagsins, fyrir liggi rökstuddar ástæður fyrir kaupum sveitarfélags og að viðskiptin eigi sér stað á viðskiptalegum forsendum. Viðræður af þessu tagi hafa átt sér stað milli sveitarfélaga og ríkisins í nokkrum tilfellum á undanförnum árum.
Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Eygló Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um ráðstafanir ríkislóða á höfuðborgarsvæðinu.
„Hin almenna stefna ríkisins við ráðstöfun á landi eða öðrum eignum ríkisins er sú að auglýsa allar slíkar eignir með opinberum hætti og taka hagstæðasta kauptilboði enda sé það metið viðunandi. Afstaða ráðuneytisins hefur verið sú að verðlagning slíkra lóða verði að byggjast á því að reynt sé að staðreyna markaðsverð eða sannvirði slíkra eigna með hlutlægum hætti. Ef um er að ræða beinar viðræður, án undanfarandi auglýsingar þar sem hæsta tilboði er tekið, verður það söluverð sem lagt er til grundvallar slíkri sölu að byggjast á hlutlægu mati jafnvel þótt kaupendur séu sveitarfélögin í landinu,“ segir í svari fjármálaráðherra. Þrátt fyrir að sveitarfélög nýti lóðir ríkisins til jákvæðrar eða félagslegrar uppbyggingar verður samt að gæta þess að sala slíkra eigna til sveitarfélaga raski ekki jafnræði með sölu á undirverði.
Ekki uppbygging í Keldnaholti á næstunni
Rætt hefur verið um sölu ríkisins á lóðum til sveitarfélaga undanfarið, meðal annars í tengslum við sölu ríkisins á Vífilsstaðalandinu til Garðarbæjar. Einnig hafa bæði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra rætt um möguleikann á því að borgin fái lóðir ríkisins til skipulagningar í tengslum við húsnæðisvandann. Meðal þeirra svæða sem Þorsteinn hefur nefnt eru Keldur og Keldnaholt.
Í svari Benedikts kemur fram að afstaða ríkisins hafi ávallt verið sú að það sé reiðubúið að ganga til samninga við borgina um sölu á landsvæðinu, enda telji ríkið að það henti mjög vel til uppbyggingar bæði íbúðabyggðar og atvinnusvæða.
„Ríkið hefur ítrekað lagt til að gerður yrði svokallaður ábataskiptasamningur um landsvæði ríkisins á svæðinu þar sem ábata af sölu á byggingarrétti yrði skipt milli ríkis og sveitarfélags. Í kjölfar þess að Reykjavíkurborg ákvað að draga verulega úr uppbyggingu á þessum svæðum með nýju aðalskipulagi, auk þess að seinka uppbyggingu þeirra, eru ekki forsendur fyrir uppbyggingu landsins í nánustu framtíð.“
Einnig hefur verið rætt við borgina um Landhelgisgæslureitinn við Ánanaust og lóð við Þorragötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Í báðum tilvikum hafa sameiginlegir matsmenn ríkis og borgar náð samhljóða niðurstöðu um verðmat lóða og ríkið var reiðubúið að ganga til samninga á grundvelli þess, segir í svarinu. Hins vegar hafi borgin ekki talið sig geta gengið til samninga á grundvelli þess verðmats.
Samstarf um skipulag og uppbyggingu í bígerð
Einnig hefur borgin spurst fyrir um lóð Veðurstofu Íslands, en ríkið er tilbúið að skoða að láta þá lóð eftir eftir borgin finnur veðurmælingum annan hentugan stað og taki þátt í þeim kostnaði.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri óskaði eftir viðræðum um samstarf ríkisins og borgarinnar um uppbyggingu íbúðar- og leiguhúsnæðis á lóðum ríkisins í borginni. „Meðal þeirra lóða sem þar eru nefndar er Landhelgisgæslulóðin, Sjómannaskólareitur, SS-reitur, Borgarspítalareitur, Veðurstofuhæð og Suðurgata–Hringbraut. Það erindi er nú í eðlilegum farvegi innan ráðuneytisins en gera verður ráð fyrir því að í slíkum viðræðum verði af hálfu ríkisins horft til þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan.“