Á aðalfundi Stoða, sem áður hét FL Group og hefur farið í gegnum nauðasamningsferli, 21. apríl síðastliðinn, var ársreikningur félagsins fyrir árið 2016 lagður fram og samþykktur af hluthöfum, en í stjórn félagsins voru kosin Jón Sigurðsson, Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Arion banka, og Örvar Kjærnested fjárfestir.
Jón var á árum áðum forstjóri FL Group, sem var meðal annars um tíma stór hluthafi í Glitni.
Í frétt Markaðarins í dag segir að íslenskir fjárfestar ásamt tryggingafélaginu TM hafi fest kaup á ríflega fimmtíu prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu Stoðum, sem áður hét FL Group, af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum.
Afkoma félagsins í fyrra var neikvæð um 4,8 milljarða króna. Eigið fé félagsins í árslok, samkvæmt ársreikningi, nam 12,9 milljörðum króna.
Heildareignir eru metnar á 13,3 milljarða króna en Glitnir HoldCo var stærsti hluthafinn um áramót, en eins og áður segir hafa nú íslenskir fjárfestar komið að félaginu.
Helsta eign stoða er 8,8 prósent hlutur í drykkjvarvöruframleiðandanum Refresco sem skráð er á markað í Hollandi.
Forstjóri Stoða er Júlíus Þorfinnsson.
Aðrir stórir hluthafar Stoða, um áramótin síðustu, voru meðal annars Arion banki, sem á ríflega 16 prósent hlut, og Landsbankinn sem á ríflega 13 prósent hlut. Íslandsbanki á óveruleganhlut, eða 1,71 prósent hlut.