Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnis HoldCo, segist ekki geta tjáð sig um það á hvaða verði Glitnir seldi hlut sinn í Stoðum, eða yfirhöfuð um viðskiptin.
Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Kjarnans. Eins og greint var frá í Markaðnum fyrr í vikunni þá hefur hópur íslenskra fjárfesta keypt ríflega helmingshlut í Stoðum af Glitni og erlendum eigendum í eigendahópi félagsins.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær þá er félagið PAI Partners SAS, sem er fjárfestingafélag sem einblínir á Evrópumarkað, sagt vera að undirbúa yfirtökutilboð í hollenska drykkjuvöruframleiðandann Refresco sem íslenska félagið Stoðir hf., áður FL Group, á ennþá 8,8 prósent hlut í.
Fyrr í mánuðinum var tilboði þess upp á 1,4 milljarða evra neitað, en samkvæmt umfjöllun Bloomberg gæti endurnýjað tilboð hljóðað upp á 1,62 milljarða evra, eða sem nemur um 182 milljörðum króna.
Miðað við það verð er 8,8 prósent hlutur 16,3 milljarða króna virði. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár, sem lagður var fram á aðalfundi 21. apríl síðastliðinn, var hlutur Stoða metinn á tæplega 13 milljarða.
Auk TM samanstendur kaupendahópurinn af félögum á vegum Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, Einari Erni Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Örvari Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM, og Magnúsi Ármanni Jónssyni, fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni í FL Group. Jón hefur setið í stjórn Refresco frá árinu 2009 og þekkir því félagið vel.
Refresco er skráð á markað í Hollandi og er markaðsverð þess, miðað við lokun markaða í gær, 1,44 milljarðar evra, um 167 milljarðar króna.
Fyrirspurn Kjarnans, vegna þessara viðskipta, til forstjóra Glitnis HoldCo var svohljóðandi: Hvenær seldi Glitnir hlut sinn í Stoðum, og á hvað var hluturinn seldur?
Svar Ingólfs Haukssonar var svona: „Ég geri ráð fyrir að það komi ekki á óvart að Glitnir getur ekki tjáð sig um sölu á einstökum eignum félagsins, hvorki hvort tiltekin eign hafi verið seld eða á hvaða verði.“
Íslensku bankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, eiga samtals um 32 prósent hlut í Stoðum. Samkvæmt síðasta ársreikningi átti Credit Suisse bankinn 8,4 prósent hlut í fyrirtækinu og JP Morgan 7,3 prósent.
Á aðalfundinum 21. apríl tók ný stjórn við, en í henni sitja Jón Sigurðsson, Iða Brá Benediktsdóttir, frá fyrirtækjasviði Arion banka, og Örva Kjærnested.