Hagvöxtur á fyrstu þremur ársins í Bandaríkjunum mældist aðeins 0,7 prósent sem var töluvert undir væntingum greinenda. Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, lofaði því í kosningabaráttunni að árlegur hagvöxtur færi upp í fjögur prósent en hann hefur verið á bilinu 2 til 3 prósent.
Þvert á þessi loforð var þróuin öfug á fyrstu mánuðum ársins, en 0,7 prósent hagvöxtur er sá minnsti sem mælst hefur frá árinu 2014, samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC.
Á miðvikudaginn tilkynnti fjármálaráðherrann Steven Mnuchin að skattar á fyrirtæki yrðu lækkaðir stórkostlega á næstunni, af breytingar fengju stuðning þingsins.
Skattur á fyrirtæki verður samkvæmt þeim hugmyndum lækkaður úr 35 prósent í 15 prósent.
Markmiðið er að auka hagvöxt og auka fjárfestingu. Greinandi sem BBC ræðir við í umfjöllun sinni segir að þessi hagvaxtarmæling nú sé vissulega lægri en reiknað var með, en í takt við það að yfirleitt mælist fyrstu þrír mánuðir ársins lægri í hagvexti en næstu mánuðir þar á eftir.
Þá segir hún einnig, að stefn Trumps muni ekki fara að virka almennilega fyrr en á næsta ári, þegar fyrstu fjárlög hans taka gildi.