Emmanuel Macron, sem er sigurstranglegastur fyrir aðra umferð forsetakosninganna í Frakklandi um næstu helgi, segir að Evrópusambandið verði að breytast, annars muni koma til þess sem hann kallar Frexit, það er útgöngu Frakka úr Evrópusambandinu.
Macron er hlynntur Evrópusambandinu og auknu samstarfi Evrópuþjóða í alþjóðavæddum heimi, en hann segir að það sé óhjákvæmilegt að hlusta á frönsku þjóðina og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem frá henni koma. Evrópusambandið sé ekki gallalaust og það þurfi að breytast til að fólk fái aftur trú á því að það sé mikilvægt og það rétta fyrir Evrópuþjóðir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Macron hjá breska ríkisútvarpinu BBC.
Samkvæmt könnunum sem BBC fjallar um mælist Macron nú með 60 prósent fylgi en þjóðernissinninn Marine Le Pen með um 40 prósent. Búist er við því að næstu dagar verði afar líflegir í frönsku kosningabaráttunni.