Nýjar tölur Hagstofu Ísland um vöruskipti við útlönd sýna glögglega að styrking krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum er farin að bíta verulega í útflutningshlið hagkerfisins. Þannig var útflutningur á sjávarafurðum um 34,5 prósent af öllum útflutningi á fyrstu þremur mánuðum þessa árs og var verðmæti þessara afurða 35,4 prósent lægra en á sama tíma í fyrra. Ástæðan er verðlækkun afurðana, að því er segir í frétt Hagstofu Íslands. Auk þess segir að áhrifin af verkfalli sjómanna í byrjun ársins hafi verið neikvæð á verðmæti, enda lá vinnsla þá niðri og sjósókn sömuleiðis.
Verri staða nú
Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 var verðmæti vöruútflutnings 23,9 milljörðum króna lægra en á sama tíma árið áður.
Iðnaðarvörur voru 58,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,2% lægra en á sama tíma árið áður.
Gengi krónunnar hefur styrkst mikið á undanförnum mánuðum. Bandaríkjadalur kostar nú 105 krónur og evran 116 krónur, en fyrir rúmlega einu og hálfu ári kostaði Bandaríkjadalur 140 krónur og evran 150 krónur.
Þá hefur gengisþróun gagnvart pundinu einnig verið neikvæð fyrir útflutningshlið hagkerfisins, en pundið kostar nú 137 krónur. Fyrir Brexit kosninguna í júní í fyrra kostaði pundið hins vegar um 206 krónur. Bretland er stærsta einstaka viðskiptaland Íslands og er það sérstaklega mikilvægt viðskiptasvæði sjávarútvegsins, einkum vegna viðskipta með þorsk.
Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 var verðmæti vöruinnflutnings 12,1 milljarði króna lægra en á sama tímabili árið áður. Aðallega dróst innflutningur á fjárfestingavörum, neysluvörum og flugvélum saman en á móti jókst innflutningur á eldsneyti og hrá- og rekstrarvörum, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.
Í mars voru fluttar út vörur fyrir 39,5 milljarða króna og inn fyrir 55,6 milljarða króna fob (59,4 milljarða króna cif). Vöruviðskiptin í mars, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 16,1 milljarð króna. Í mars 2016 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 22,1 milljarð króna á gengi hvors árs. Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 voru fluttar út vörur fyrir 108,6 milljarða króna en inn fyrir 146,1 milljarð króna fob (156,0 milljarða króna cif). Halli var því á vöruviðskiptum við útlönd sem nam 37,5 milljörðum króna, reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma árið áður voru vöruviðskiptin óhagstæð um 25,6 milljarða á gengi hvors árs, að því er segir í frétt Hagstofunnar. Vöruviðskiptajöfnuðurinn var því 11,9 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.