Lyfjafyrirtækið Lyf og heilsa er ekki lengur í eigu Karls Wernerssonar, heldur hefur rúmlega tvítugur sonur hans eignast fyrirtækið og aðrar eignir í móðurfélagi þess. Þetta gerðist daginn eftir að Karl var dæmdur í fangelsi í Hæstarétti. RÚV greinir frá þessu.
Karl var einn umsvifamesti fjárfestir landsins fyrir hrun í gegnum eignarhaldsfélagið Milestone, sem hann átti með systkinum sínum. Milestone átti Lyf og heilsu auk stórra hluta í Sjóvá og Glitni, en félagið varð gjaldþrota 2009. Nokkrum mánuðum fyrir hrun var Lyf og heilsa selt úr samsteypunni. Enn er í gangi dómsmál vegna þess, en lögmaður þrotabús Milestone segir að tilgangurinn með sölunni hafi verið að koma fyrirtækinu undan gjaldþrotinu.
Þegar fyrirtækið var selt út úr Milestone varð Karl eini eigandinn og framkvæmdastjóri. Í fyrra dæmdi Hæstiréttur hann í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir efnahagsbrot og hann varð að hætta sem framkvæmdastjóri.
Daginn eftir dóminn var nýjum og leiðréttum ársreikningi fyrir móðurfélag Lyfja og heilsu skilað til ársreikningaskrár. Félagið heitir Faxar ehf., en það er í eigu annars félag sem heitir Faxi ehf. Faxi ehf. er svo í eigu félagsins Toska ehf.
Karl hafði verið skráður eigandi þegar ársreikningi fyrir árið 2014 var skilað inn í nóvember 2015. Í apríl 2016 var leiðréttum ársreikningi skilað inn, og þar kom fram að í árslok 2014 hefði sonur Karls, Jón Hilmar, verið 100% eigandi.
Inni í félaginu eru yfir þrjátíu fasteignir, þar á meðal heimili Karls, og bílar.