Mikilvægt er fyrir sveitarfélög að fylgjast með útbreiðslu heimagistingar, bæði til að verða ekki af tekjum og einnig til að standa með íbúunum. Þetta segir Hermann Valsson, ráðgjafi hjá Icelandalastminute ehf., í viðtali við Morgunblaðið í dag, þar sem fjallað er um umfang óskráðrar heimagistingar.
Segir hann í viðtali við blaðið að um ein milljón óskráðra gistinátta hafi verið í Reykjavík í fyrra og að þær hafi getað skilað 10-14 milljörðum króna í tekjur. „Þetta vekur spurningar um hvort þetta var gefið upp og hvort húsnæðið hafi verið rétt skráð,“ segir hann í viðtalinu.
Mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustunni síðustu árin og hefur vöxturinn í heimagistingu, meðal annars í gegnum vefsíður eins og Airbnb og Home Exchange, verið mikill, ekki síst miðsvæðis í Reykjavík.
Á síðasta ári komu 1,8 milljónir ferðamanna til landsins en á þessu ári er talið að fjöldinn fari yfir 2,3 milljónir.