„Að óbreyttu þá hyggst ég bjóða mig fram næst, en ég ætla ekki að lofa því,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, um stjórnmálaþátttöku sína. Helgi segir að kannski verði annað fólk í framboði sem hann muni frekar vilja styðja, það sé fullt af frábæru fólki innan Pírata. Hann segir þetta koma í ljós þegar nær dregur.
Helgi Hrafn er gestur sjónvarpsþáttarins Kjarnans á Hringbraut í kvöld. Viðfangsefni þáttarins, sem er í stjórn Þórðar Snæs Júlíussonar og Þórunnar Elísabetar Bogadóttur, eru breytingar á íslenskum stjórnmálum eftir hrun. Það er ekki ofsögum sagt að þær breytingar séu gríðarlegar, og meðal þess sem hefur breyst er flokkakerfið. Í síðustu kosningum fengu flokkar sem voru stofnaðir eftir árið 2012 tæplega 40 prósent atkvæða. Þetta og margt annað er rætt í þættinum í kvöld.
Helgi Hrafn er gestur í seinni hluta þáttarins, en hann er að mörgu leyti holdgervingur þeirra breytinga sem orðið hafa á íslenskum stjórnmálum undanfarin ár. Hann segir mjög áhugavert að fylgjast með stjórnmálum nú, eftir að hafa stigið út úr þeim.
„Ég er á því að hrunið hafi valdið samfélaginu áfalli, áfalli sem það kunni ekki að meðhöndla. Núna er í umræðunni mikið um geðheilsu, sem er ofboðslega þarft og kominn tími til og hollt. En hvernig á samfélag að bregðast við áfalli eins og því sem varð árið 2008?“ spyr Helgi Hrafn meðal annars. Hann segir að í raun hefði verið þörf á samfélagslegri áfallahjálp, en okkur hefur ekki tekist að takast á við áföllin.