„Ég segi Seðlabankanum auðvitað ekki fyrir verkum, en ég get sagt mína skoðun. Nefndin ætti að taka á sig rögg núna í maí og lækka vextina myndarlega. Hún getur alltaf hækkað þá aftur næst, ef henni finnst viðbrögð hagkerfisins of ofsafengin.“
Þetta segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, í pistli á vefsíðu Viðreisnar þar sem hann gerir upp fyrstu 111 dagana í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Meginvextir Seðlabanka Íslands er nú 5 prósent en verðbólga mælist 1,9 prósent. Hún hefur verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans í meira en þrjú ár.
Í pistlinum gerir hann meðal annars stöðu efnahagsmála að umtalsefni sem hann segir vera góða, en spennan á markaðnum sé þó augljós. „Öllum aðgerðum fylgir áhætta, spennan er mikil á markaði og vaxtalækkun þyrfti að fylgja dempun á útlánum með öðrum ráðum, til dæmis lækkun á veðhlutföllum, þannig að vaxtalækkunin færi ekki beint í hærra húsnæðisverð. Lífeyrissjóðirnir sæju sér eflaust meiri hag í því að færa hluta af sínum fjárfestingum til útlanda. Burtséð frá öllu öðru er það líka nauðsynlegt því að hagkerfið rúmar þá varla lengur með allt sitt fjármagn,“ segir Benedikt.
Hann segir marga hafa gert sér vonir um að helstu baráttumál Viðreisnar, eins og markaðsleið í sjávarútvegi og meiri áherslu á Evrópumál. Hins vegar sé Viðreisn ekki í hreinum meirihluta og því þurfi að horfa á málin með þeim hætti, þar sem semja þurfti um helstu ágreiningsmálin.
Hann segir stjórnvöld hafa gert margt til að sporna við erfiðleikum sem geta myndast vegna sterks gengis krónunnar. „Hvað koma háir vextir og hátt gengi krónunnar 111 dögunum við? Jú, þetta tvennt er það eina sem ég hef haft áhyggjur af þessa daga frá því í janúar. Auðvitað hefur margt annað komið upp, en það eru viðfangsefni sem hægt er að glíma við með einhverju móti, en gengið er eins og hamfarir sem fjármálaráðherra fær ekkert við ráðið. Víst hefur ríkisstjórnin gert margt sem í hennar valdi stendur til þess að sporna við gengisstyrkingu á þessum 111 dögum: Við höfum aflétt höftum, borgað niður erlendar skuldir, boðað skattahækkun á erlenda ferðamenn, hvatt lífeyrissjóði til þess að flytja fé úr landi og boðað aukinn afgang á ríkisfjármálum, en þetta virkar nánast eins og skvetta vatni á gæs. Vaxtatækið er enn ónotað og því ræður Seðlabankinn, eða öllu heldur peningastefnunefndin. Nefndin á næsta leik,“ segir Benedikt.