Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi og stjórnandi hjá Virðingu, hefur verið ráðinn forstjóri Kviku banka. Hann tekur við starfinu af Sigurði Atla Jónssyni sem sagði starfi sínu lausu fyrir skemmstu. Þá hefur Marinó Örn Tryggvason verið ráðinn aðstoðarforstjóri bankans.
Ármann hefur starfað hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu undanfarin tvö ár, síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, en hætti þar störfum í lok síðustu viku. Ármann er ásamt meðfjárfestum sínum fimmti stærsti eigandi Virðingar í gegnum félagið MBA Capital ehf., en það á 4,66 prósent hlut í fyrirtækinu.
Stjórnir Virðingar og Kviku undirrituðu í nóvember 2016 viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku. Í aðdraganda sameiningar átti að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir króna og greiða lækkunina til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku áttu eftir samruna að eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut. Viðræðurnar gengu hins vegar erfiðlega og í lok mars var tilkynnt að stjórnir Kviku og Virðingar hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna.
Kvika banki hagnaðist um tæpa tvo milljarða króna í fyrra eftir skatta og arðsemi eiginfjár hjá bankanum var 34,7 prósent. Eignir Kviku drógust saman á árinu um þrjú prósent og voru 59,5 milljarðar króna um síðustu áramót. Eigið fé bankans var 7,3 milljarðar króna og jókst á árinu þrátt fyrir að hlutafé hafi verið lækkað um milljarð króna á fyrri hluta síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið var 20,6 prósent í lok árs 2016.
Miklar væringar hafa verið í kringum bankann að undanförnu, sérstaklega eftir að Vátryggingafélag Íslands (VÍS) keypti stóran hlut í honum í byrjun árs. VÍS er nú stærsti einstaki Kviku með 24,89 prósent hlut. Einkafjárfestar, með Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur í broddi fylkingar, hafa náð tökum innan tryggingafélagsins og hún er nú stjórnarformaður þess. Félag í eigu Svanhildar Nönnu er einnig fjórði stærsti hluthafi Kviku með átta prósent eignarhlut. Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að Gildi lífeyrissjóður hefði selt hluta af bréfum sínum í VÍS nýverið. Ástæðan var sú að sjóðnum hugnaðist ekki stjórnarhættir sem höfðu viðgengist í VÍS.