Mannréttindardómstóll Evrópu hefur dæmt í hag þriggja fyrrverandi stjórnenda DV í Sigurplastsmálinu svokallaða. Dómur dómstólsins var birtur í morgun og þar kemur fram að hann telur dóm Hæstaréttar í málinu, þar sem mennirnir þrír voru dæmdir fyrir meiðyrði, stangist á við 10. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt sérhvers manns til tjáningarfrelsis og á sá réttur einnig að „ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda.“
Reynir Traustason, þáverandi ritstjóri DV, Ingi Freyr Vilhjálmsson, þáverandi fréttastjóri blaðsins, og Jón Trausti Reynisson, sem þá var framkvæmdastjóri DV, voru í Hæstarétti árið 2012 dæmdir til að greiða Jóni Snorra Snorrasyni, lektor í viðskiptafræði og fyrrverandi stjórnarformanni fyrirtækisins Sigurplasts, miskabætur vegna umfjöllunar í blaðinu, auk þess sem ummæli þar voru dæmd dauð og ómerk.
Jón Snorri höfðaði málið vegna umfjöllunar DV um meint lögbrot sem talið var að hefðu átt sér stað hjá Sigurplasti frá árinu 2007 og fram á haustið 2010 þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri Sigurplasts og Arion banki, stærsti kröfuhafi fyrirtækisins, höfðu kært stjórnendur fyrirtækisins til viðeigandi embætta fyrir ýmis konar meint lögbrot. Á meðal þeirra voru skattalagabrot, veðsvik, skilasvik, umboðssvik og fjárdrátt.
Í leiðara sem Ingi Freyr skrifaði um málið eftir að dómur Hæstaréttar var uppkveðinn sagði að heimildir DV fyrir því að Sigurplastsmálið hefði verið kært til lögreglunnar byggðu m.a. á skýrslu sem endurskoðendafyrirtækið Ernst & Young vann fyrir skiptastjóra Milestone og munnlegum staðfestingum heimildarmanna. „Dómur Hæstaréttar Íslands byggir á þeirri forsendu að þessar staðhæfingar hafi ekki verið réttar á þeim tímapunkti sem þær voru sagðar þar sem rannsókn á Sigurplastsmálinu hafi ekki verið hafin hjá lögreglu þegar DV birti fréttina heldur hafi kærurnar sem um ræðir verið „til skoðunar“ en ekki rannsóknar.
Lögmaður Jóns Snorra lagði fram tölvupóst frá starfsmanni efnahagsbrotadeildarinnar þar sem fram kom að kærurnar hefðu borist og að þær væru „til skoðunar“ en að „ekki“ hafi „verið tekin formleg ákvörðun um lögreglurannsókn“. Ef DV hefði sagt: „Lögreglan skoðar lektor“; „Lektor í viðskiptafræði flæktur í lögregluskoðun“, hefði væntanlega ekkert verið athugavert við umfjöllun blaðsins um Sigurplastsmálið.“