Íslendingar eru gríðarlega ánægðir með forsetann sinn. Alls segjast 85 prósent aðspurðra í nýrri könnun MMR að þeir séu ánægðir með störf Guðna Th. Jóhannessonar en einungis 2,8 prósent eru óánægðir. Konur eru ánægðari með Guðna Th. en karlar. Alls segjast 91 prósent kvenna ánægðar með forsetann en 80 prósent karla. Þetta er langmesta ánægja sem mælst hefur nokkru sinni með sitjandi forseta.
Mest er ánægjan hjá stuðningsfólki Pírata og Vinstri grænna, en á meðal þeirra kváðust 95 prósent vera ánægð með Guðna. Minnst er ánægjan hjá stuðningsfólki Framsóknar (67 prósent ánægðir) og Sjálfstæðisflokksins (80 prósent ánægðir).
Könnunin var framkvæmd dagana 11. til 26. apríl 2017 og var heildarfjöldi svarenda 926 einstaklingar, 18 ára og eldri.
MMR mældi fyrst ánægju með störf forsetam eftir að Guðni Th. tók við embættinu í byrjun september 2016. Þá mældist ánægja með Guðna Th. 68,6 prósent, sem var mesta ánægja sem mælst hafði á þeim tíma. Síðan hefur bæst verulega í þann hóp sem er ánægður með störf sitjandi forseta. Guðni Th. tók við embætti forseta Íslands 1. ágúst síðastliðinn.
Ánægja með störf hans hefur síðan haldið áfram að vaxa og fór yfir 80 prósent í febrúar á þessu ári.
Undanfarin ár, áður en Guðni Th. tók við embættinu, hafa á bilinu 15-30 prósent sagst vera óánægð með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta, en ánægjan með störf hans mældist á bilinu 45-64 prósent.