Ef konur væru jafn virkar á bandarískum vinnumarkaði og karlar þá væri bandaríska hagkerfið í það minnsta fimm prósent stærra. Þetta er eitt af því sem rannsókn frá 2012, sem Janet Yellen seðlabankastjóri Bandaríkjanna vann, leiddi í ljósi.
Í ræðu sem hún hélt í dag við Brown háskóla í New York, í tilefni af því að 125 ár eru síðan háskólinn hóf að taka inn konur sem nemendur, sagði hún að bandarískt samfélag hefði mikla hagsmuni af því að virkja kraft og þekkingu kvenna. „Við, sem þjóð, höfum upplifað mikinn ávinning af því vaxandi hlutverki sem konur hafa sinnt í bandarísku efnahagslífi [...] Rannsóknir sýna þó að konur eru enn að upplifa mun meiri hindranir, þegar kemur að framgangi á vinnumarkaði, heldur en karlar.“
Hún lagði áherslu á að það þyrfti betri og ítarlegri stefnumörkun af hálfu stjórnvalda, til að virkja konur og gera þeim mögulegt að byggja upp eðlilegan feril í fullri vinnu. Yellen lagði enn fremur áherslu á það að Bandaríkin væru að dragast aftur úr öðrum þróuðum ríkjum, t.d í Evrópu, en Bandaríkin eru nú í 17. sæti af 22 þróuðum ríkjum. Hún sagði að líklega myndi atvinnuþátttaka kvenna hækka út 74,3 prósent í 82 prósent ef svipuð stefnumörkun færi fram og þegar hefði verið leidd í lög víða í Evrópu.
Frá því árið 2000 hefur staðan versnað, sé sérstaklega horft til kvenna á aldrinum 25 til 54 ára. Atvinnuþátttakan hefur farið úr 77,3 prósent í 74,3. Þó þetta virðist ekki svo mikið bil, þá vegur hvert prósentustig þungt í þróun sem þessari og Yellen sagði í ræðu sinni að það væri mikið áhyggjuefni að staðan væri að versna.
Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist 0,7 prósent á fyrstu mánuðum ársins, sem er það minnsta síðan 2014. Flestar spár gerðu ráð fyrir meiri hagvexti, en Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur lofað því að koma hagvexti í 4 prósent strax á þessu ári.