Efnahagslegar aðstæður þjóðarbúsins og vöxtur ferðaþjónustunnar gera það saman að verkum að ekki er lengur ástæða fyrir skattalega ívilnun til ferðaþjónustu. Þetta kemur fram í aðsendri grein frá Benedikt Jóhannessyni, fjármála- og efnahagsráðherra, sem birtist í Kjarnanum fyrr í dag. Hann segir greiningar benda til þess að vöxtur ferðaþjónustunnar verði áfram kröftugur, einfaldara skattkerfi og færri undanþágur muni bæta skilvirkni tekjuöflunar og lækkun á almennu virðisaukaskattsþrepi muni koma neytendum og atvinnulífinu til góðs.
Ákvörðun um að færa stærstan hlut ferðaþjónustu í efra þrep virðisaukaskatts er ekki tekin úr lausu lofti, heldur byggir meðal annars á vinnu sem fram fór á vegum samráðsvettvangs um aukna hagsæld og samkvæmt ráðleggingum AGS og OECD.
Sú vinna sem hann vísar í gekk út á að hafa aðeins eitt virðisaukaskattsþrep á Íslandi, segir Benedikt, en það sé ekki ætlunin í bili, „meðal annars vegna áhrifa á kostnað við matarinnkaup. Þar liggur þó ástæðan fyrir því að ekki hefur verið talið fært að setja ferðaþjónustuna í milliþrep eins og hugmyndir hafa verið um; þegar markmiðið er öðrum þræði einföldun skattkerfis er úr ekki skynsamlegt að bæta þriðja þrepinu við.“
Benedikt segir að töluvert starf hafi verið unnið innan fjármála- og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins við að kortleggja ferðaþjónustuna og skattgreiðslur hennar. „Í stuttu máli er niðurstaðan sú, að afnám skattalegrar ívilnunar greinarinnar hafi fremur lítil áhrif á kostnað við meðalferð til Íslands og muni því ein og sér ekki hafa veruleg áhrif á fjölda eða fjölgun þeirra.“
Styttri dvalartími vegna skorts á framboði
Þá skrifar Benedikt um þá umræðu um að dvalartími ferðamanna hafi styst á Íslandi eftir að gengi krónunnar hækkaði, og meðallengd dvalartíma hafi styst. Hann segir að það kunni fleira að koma til en styrking krónu. Hann segir að það virðist blasa við að styttri dvalarlengd megi að stórum hluta rekja til styttri dvalartíma yfir sumartíman þegar skortur á framboði geri að verkum að ekki sé hægt að dvelja jafnlengi. „Einnig hefur sú tilgáta verið studd rökum að umfang óskráðra gistinga hafi aukist. Einnig má benda á að hlutfall þeirra sem koma að vetrarlagi hefur stóraukist, en ferðamenn dveljast að jafnaði skemur á Íslandi á veturna en sumrin.“
Ör vöxtur geti leitt til ófarnaðar
Fjármálaráðherra segir að nær allir greinendur og stefnusmiðir sem fjallað hafi um ferðamennsku vari við því að svo ör vöxtur, eins og orðið hefur á Íslandi, geti leitt til efnahagslegs og umhverfislegs ófarnaðar.
„Stór þáttur er stórhækkun á raungengi krónunnar. Hún hefur aftur í för með sér að samkeppnisstaða annarra greina versnar sem því nemur. Nefna má sjávarútveg og ýmis þekkingarfyrirtæki í framleiðslu, hönnun og hugbúnaði. En áhrifin eru víðtækari, því þau ná einnig til fyrirtækja sem keppa við innfluttan varning, fyrirtækja eins og innréttingasmiði og matvælavinnslur,“ skrifar Benedikt.
Þá fari samkeppni um vinnuafl og fjármagn harðnandi, ýmsir innviðir séu þandir, sem og húsnæðismarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdir verði dýrari þegar verktakar hafi úr mörgum verkefnum að velja, á sama tíma og krafa sé um aukin útgjöld til innviða og velferðarmála.
Á sama tíma hafi þjónusta við ferðamenn notið skattalegrar ívilnunar gagnvart öðrum atvinnugreinum, þar sem obbinn af ferðaþjónustu sé í lægra virðisaukaskattsþrepinu, sem almennt sé notað fyrir brýnustu nauðsynjar og þá hluti sem sérstök ástæða teljist til að njóti sérkjara. „Áætlað hefur verið að þessi ívilnun jafngildi um 22 milljörðum króna árlega. Skattaívilnunin er hlutfallslega mikil og kostnaðarsöm samanborið við önnur lönd sökum þess hversu þungt greinin vegur í landsframleiðslunni. Þessi megingrein atvinnulífsins, grein sem er yfir 8% af hagkerfinu, skilaði árið 2016 um 3% af tekjum ríkisins af virðisaukaskatti.“
Margþætt áhrif af breytingunum
Benedikt segir breytinguna hafa margþættan tilgang. „ Í fyrsta lagi leitast hún við að hægja á vexti ferðaþjónustunnar og draga þannig úr þrýstingi til hækkunar á gengi krónunnar.“ Í öðru lagi jafni aðgerðin rekstrargrundvöll atvinnugreina í landinu, og í þriðja lagi að ein höfuðatvinnugreinin taki sama þátt og aðrir í að standa undir opinberum kostnaði við hana og almennri samneyslu. „Í fjórða lagi gerir aðgerðin skattkerfið skilvirkara og einfaldara með því að fækka undanþágum. Íslenskt skattkerfi hefur raunar legið undir ámæli fyrir að vera óskilvirkt að þessu leyti meðal annars í skýrslum OECD. Í fimmta og síðasta lagi aflar aðgerðin ríkinu tekna,“ segir ráðherrann.