Fjölmiðlanefnd getur ekki með nokkrum hætti staðið við þær skuldbindingar sem henni eru ætlaðar samkvæmt lögum. Nefndin hefur ítrekað látið Alþingi vita af því að fjárveitingar til nefndarinnar séu ekki í samræmi við skyldur hennar samkvæmt lögum. Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar um fjármálaáætlun stjórnvalda. „Ekki er að sjá að neinar breytingar verði gerðar á tímabilinu í fjármálaáætlun,“ segir í umsögn nefndarinnar.
„Fjárveitingar til nefndarinnar voru skornar niður um 10 milljónir króna miðað við upphaflegt fjárlagafrumvarp árið 2014 og um 8,5 milljónir króna miðað við fjárframlög til nefndarinnar á árinu 2013,“ segir í umsögninni. Síðan þá hafi fjárframlög ekki hækkað nema til að standa straum af verðlagsbreytingum og kjarasamningshækkunum.
„Fjármálaáætlun er ekki í samræmi við fjárþörf nefndarinnar, einkum vegna
þeirra lagafrumvarpa sem Alþingi hefur samþykkt á undanförnum árum. Samkvæmt lögum um
fjölmiðla ber fjölmiðlanefnd að hafa eftirlit með ákvæðum laganna.“ Meðal þess sem nefndinni ber að gera er að tryggja samræmt eftirlit með hljóð- og myndmiðlum á EES-svæðinu, en það er samkvæmt EES-tilskipun. Ný tilskipun verður samþykkt á næsta ári þar sem enn frekari skyldur verða lagðar á herðar fjölmiðlanefndar.
„Málafjöldi nefndarinnar hefur aukist verulega og verða mál sífellt umfangsmeiri. Fjölmiðlanefnd mun frá og með árinu 2017 þurfa að skila árlegri skýrslu vegna eftirlits með Ríkisútvarpinu þar sem þjónustusamningur hefur verið gerður við félagið samkvæmt lögum. Er um umfangsmikið eftirlitsverkefni að ræða. Samrunum á fjölmiðlamarkaði fjölgaði einnig umtalsvert á árinu 2016 og 2017 og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.“
Þá hefur fjölmiðlanefnd aldrei fengið þær fjárveitingar sem áður runnu til Barnaverndarstofu, til þess að hafa eftirlit með aldursmerkingum á kvikmyndum, sjónvarpsefni og tölvuleikjum.
Nefndin segir að hún telji að það þurfi umfangsmikla hækkun á fjárveitingum til starfsemi hennar á næstu árum, „til að nefndin geti sinnt fyrrgreindum verkefnum, sem Alþingi hefur falið nefndinni að rækja á undanförnum árum, án þess að fjárveitingar hafi fylgt þeim.“