Meirihluti Íslendinga er mótfallinn upptöku veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi, samkvæmt nýrri könnun frá MMR. 56 prósent svarenda sögðust á móti veggjöldum, en þar af voru 39 prósent mjög andvíg og 16,6 prósent frekar andvíg.
Tæplega nítján prósent aðspurðra voru hvorki fylgjandi né andvíg gjöldunum. 18,5 prósent eru frekar fylgjandi og 6,9 prósent mjög fylgjandi veggjöldum.
Karlar eru líklegri en konur til þess að vera á móti veggjöldum, 60 prósent karla eru andvígir vegtollum en 50 prósent konur.
Fólk á aldrinum 18 til 29 ára var óákveðnara í afstöðu sinni til veggjalda en aðrir aldurshópar, en 32 prósent voru hvorki fylgjandi né andvíg. Stuðningur við upptöku veggjalda eykst með hækkandi aldri, og 29 prósent fólks á aldrinum 68 ára og eldri eru fylgjandi veggjöldum.
Íslendingar á landsbyggðinni eru frekar andvígir innheimtu veggjalda en íbúar höfuðborgarsvæðisins, 63 prósent á móti 52 prósentum.
Stuðningsfólk Pírata og Samfylkingarinnar eru töluvert líklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að vera mjög andvíg innheimtu veggjalda, 57% og 50% andvíg. Aftur á móti er stuðningsfólk Viðreisnar mun líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að vera frekar eða mjög hlynnt veggjöldum. 45 prósent þeirra eru hlynnt veggjöldum.