Staðlaráð Íslands telur ekki rétt að skylda fyrirtæki og stofnanir til þess að innleiða jafnlaunavottun, en ráðið er útgefandi staðalsins sem notaður er við slíka vottun. Þetta kemur fram í umsögn Staðlaráðs við frumvarp Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um jafnlaunavottun.
„Miklu fremur ætti að umbuna þeim sem það gera með einhvers konar ívilnunum. Minnt er á að skyldan til að greiða körlum og konum sömu laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf er þegar til staðar í lögum, staðallinn breytir engu þar um,“ segir í umsögn Staðlaráðs. Ráðið telur vænlegra til árangurs að beita jákvæðri hvatningu frekar en þvingunum. Staðlar eins og jafnlaunastaðallinn séu almennt ætlaðir til valfrjálsrar notkunar.
„Vottun á jafnlaunakerfi samkvæmt ÍST 85:2012 er ein lausn
sem fyrirtæki og stofnanir geta notað til að sýna fram á að þau fari að lögum, en slík vottun þarf ekki -
og ætti ekki - að vera eina úrræðið. Fyrirtæki og stofnanir ættu að hafa frelsi til að beita öðrum úrræð-
um til að sýna fram á að þau fari að lögum. Tilgangurinn með gerð staðalsins var að láta í té úrræði,
sem gera mátti ráð fyrir að mörg fyrirtæki og stofnanir þekktu þegar af öðrum sviðum, svo sem umhverfisstjórnun
og gæðastjórnun.“
Staðlaráð segir einnig að það þurfi að endurskoða jafnlaunastaðalinn á næstu árum, og að hugtakið vottun í frumvarpinu sé ekki nákvæmlega það sama og í staðlinum. Þá segir ráðið að ekkert hafi verið leitað til þess við samningu frumvarpsins, þrátt fyrir að það gefi út staðalinn og eigi höfundar- og nýtingarrétt á honum. Þetta segist Staðlaráð harma. „Rétt er að fram komi að velferðarráðuneytið hafði aldrei samband við Staðlaráð til að fá ábendingar, ráðleggingar eða upplýsingar varðandi þá fyrirætlun ráðuneytisins að gera notkun staðalsins skyldubundna fyrir öll fyrirtæki og stofnanir í landinu með 25 eða fleiri starfsmenn. Staðlaráð telur þessa framgöngu með ólíkindum og harmar slíkt samráðsleysi.“
Ráðið segist reiðubúið að veita allar upplýsingar, ábendingar og ráðleggingar sem kunni að koma að gagni við áframhaldandi vinnslu málsins.