Íslenska bankakerfið hrundi í október 2008, en hvað svo og hver er staðan á bankakerfinu núna? Fyrir hvern er bankakerfið og hvern þjónustar það?
Þessum spurningum og fleirum er velt upp í Kjarnanum á Hringbraut þessa vikuna. Þórður Snær Júlíusson og Þórunn Elísabet Bogadóttir eru sem fyrr stjórnendur þáttarins, en Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, er gestur þáttarins í þessari viku.
Meðal þess sem Katrín ræðir er afstaða fjármálafyrirtækja til bankaskattsins. Fjármálakerfið á Íslandi hafi breyst mjög mikið, ekki síst með tilkomu mikilla lánveitinga lífeyrissjóða. Bankarnir standi ekki jafnfætis lífeyrissjóðunum þar sem bankaskatturinn sé bara lagður á banka. Það sama eigi við gagnvart erlendum lánveitendum, sem séu aftur orðnir mjög sterkir hjá stóru fyrirtækjunum á Íslandi.
„Þannig að samkeppnisstaða bankanna hefur skekkst mjög mikið og þetta getur til lengri tíma haft mjög alvarleg áhrif á eignasöfn þessara banka og við skulum þá ekki gleyma því að bankarnir eru í eigu ríkisins og skattborgaranna að tveimur þriðju hluta til. Þannig að virði eigna skattborgaranna í þessu tilviki eru og geta rýrnað þegar til lengri tíma lætur ef þessi skattur heldur áfram vegna þess að samkeppnisstaðan er ekki sú sama,“ segir Katrín. Þetta muni hafa áhrif á arðgreiðslur og á virði þessara eigna sem séu í eigna ríkisins í dag.