#viðskipti#jafnréttismál

Konum fjölgar ekki í stjórnunarstöðum á Íslandi

Hlutfall kvenna í stjórnum og framkvæmdastjórastöðum á Íslandi helst nánast óbreytt milli ára. Langt er í að kynjakvóta sé náð. Eingöngu í félagasamtökum og annarri þjónustustarfsemi eru konur í meirihluta stjórnenda.

Hlut­fall kvenna í stjórnum fyr­ir­tækja á Íslandi stendur í stað milli ára, sam­kvæmt nýjum tölum frá Hag­stofu Íslands. Konur eru 25,9 pró­sent stjórn­ar­manna í fyr­ir­tækjum á Íslandi. Frá árinu 1999 hefur hlut­fall kvenna í stjórnum fyr­ir­tækja hækkað úr 21,3 pró­sentum í 25,9 pró­sent. 

Þegar litið er til fyr­ir­tækja með 50 eða fleiri starfs­menn voru konur 32,3 pró­sent stjórn­ar­manna í lok síð­asta árs. 

Lög um kynja­kvóta í stjórnum fyr­ir­tækja tóku að fullu gildi hér á landi í sept­em­ber 2013 og sam­kvæmt þeim ber fyr­ir­tækjum með 50 eða fleiri starfs­menn að tryggja að hlut­fall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 pró­sent­um. Árið eftir það náði hlut­fall kvenna í stjórnum fyr­ir­tækja af þess­ari stærð hámarki, fór upp í 33,2 pró­sent, en hefur síðan farið lækk­andi aft­ur. 

Auglýsing

Konum fjölg­aði lít­il­lega í stöðum fram­kvæmda­stjóra í fyrra, en hlut­fall þeirra fór úr 21,9 pró­senti í 22,1 pró­sent. Sam­kvæmt því voru 2.932 konur í stöðu fram­kvæmda­stjóra hér á landi í lok árs­ins 2016. Hag­stofan greinir töl­urnar einnig eftir grein­um, og í aðeins einni þeirra eru konur í meiri­hluta fram­kvæmda­stjóra. Það er í félaga­sam­tök­unum og annarri þjón­ustu­starf­semi, þar sem konur eru 64 pró­sent fram­kvæmda­stjóra. Í fræðslu­starf­semi eru konur 45,6 pró­sent fram­kvæmda­stjóra og 39,6 pró­sent í heil­brigð­is- og félags­þjón­ust­u. 

Í lok síð­asta árs voru konur 23,9 pró­sent stjórn­ar­for­manna lands­ins. Það gera 3.691 konu sem gegndi slíku starfi. Aftur eru konur ein­göngu í meiri­hluta stjórn­ar­for­mennsku­starfa í félaga­sam­tökum og annarri þjón­ustu­starf­semi, þar sem þær eru 58 pró­sent stjórn­ar­for­manna. Sömu sögu er svo að segja af stjórn­ar­mennsku kvenna, þær eru í meiri­hluta stjórna félaga­sam­taka og ann­arrar þjón­ustu­starf­semi, en hvergi ann­ars stað­ar. 

Viltu styrkja sjálfstæða íslenska fjölmiðlun?
Lesendur Kjarnans geta kosið að greiða fast mánaðarlegt framlag til fjölmiðilsins til að efla starfsemi hans enn frekar. Markmiðið er upplýstari, gagnrýnni og málefnalegri umræða. Hjálpið okkur við að ná því markmiði með því að ganga til liðs við Kjarnasamfélagið.
Meira úr sama flokkiInnlent