Leiðtogi demókrata á Bandaríkjaþingi, Chuck Schumer, fékk hringingu frá Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, þar sem forsetinn tjóði honum að hann væri að fara reka James Comey sem forstjóra alríkislögreglunnar FBI. Ákvörðunin kemur á sama tíma og FBI er með rannsókn í gangi vegna tengsla framboðs Trumps við Rússa, í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra.
Á meðal þeirra sem eru til rannsóknar eru Michael Flynn, sem var rekinn sem aðalþjóðaröryggisráðgjafi eftir tæplega 20 daga í starfi, og Jeff Sessions dómsmálaráðherra. Hann hitti Sergey Kislyak, sendiherra Rússa í Washington, í tvígang á fundum í aðdraganda kosninganna, en eiðsvarinn sagði hann Bandaríkjaþingi að hann hefði ekki verið í neinum samskiptum við Rússa.
Schumer segist hafa tjáð Donald Trump Bandaríkjaforseta að það væru mikil mistök að víkja James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, frá störfum á meðan rannsókn stæði yfir á meintum afskiptum Rússa í forsetakosningunum á síðasta ári.
„Fyrr í dag hringdi Trump forseti í mig og upplýsti mig um að hann væri að fara að víkja Comey frá störfum. Ég sagði við forsetann, „með fullri virðingu, þá ertu að gera stór mistök,“ sagði Schumer á blaðamannafundi.
Þá tók hann undir ákall fleiri flokksmanna sinna um að sjálfstæður og sérstakur saksóknari eða nefnd rannsaki möguleg samráð kosningaframboðs Trumps og rússneskra embættismanna. Það ákall hefur bæði komið frá Demókrötum og Repúblikönum.
Hin opinbera ástæða þess að Comey var rekinn var sú að hann hefði höndlað rannsóknina á tölvupóstum Hillary Clinton illa, og tjáð sig um málið með óviðeigandi hætti á meðan málið væri enn í rannsókn. Í bréfi sem aðstoðarráðherra dómsmála, Rod Rosenstein, skrifaði, þar sem rök eru færð fram fyrir því að Comey verði rekinn, kemur fram að hann hefði farið út fyrir starfssvið sitt með ótímabærum yfirlýsingum.
Það var Jeff Sessions dómsmálaráðherra - sem nú er til rannsóknar vegna sambands hans við Rússa - sem lagði til við Trump að Comey yrði rekinn strax, og nýr yfirmaður FBI ráðinn eins fljótt og kostur væri. Ekki liggur fyrir enn hver það verður.