Jón Finnbogason, sem verið hefur forstöðumaður skuldabréfateymis Stefnis, hefur verið ráðinn forstöðumaður lánaumsýslu Arion banka. Um er að ræða nýja deild og stöðu innan bankans sem heyrir beint undir bankastjóra, að því er segir í tilkynnigu.
Undir þessa nýju deild heyrir umsýsla og greining vegna stærri lánveitinga sem áður fór fram innan lánasviða og áhættustýringar bankans.
Jón útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1998, hlaut lögmannsréttindi fjórum árum síðar og hefur jafnframt lokið verðbréfanámi.
Jón hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2000, nú síðasta sem forstöðumaður skuldabréfa hjá Stefni frá árinu 2013.
Áður starfaði Jón meðal annars sem aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka og forstjóri Byrs hf. Þá hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana.
Heildareignir Arion banka í lok árs í fyrra námu 1.036 milljörðum króna og eigin fé bankans var 211 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið var 27,1 prósent.