Jón Gunnarsson samgönguráðherra lætur að því liggja á Facebook-síðu sinni að fjárfestingar lífeyrissjóða í tryggingafélaginu VÍS snúist um að ná völdum en ekki að ávaxta fé landsmanna með sem bestum hætti.
„Viðbrögð lífeyrissjóða vegna stjórnarkjörs í VÍS hljóta að vekja upp spurningar. Eftir að fulltrúi sem þeir styðja náði ekki kjöri til stjórnarformanns hafa þeir ákveðið að draga verulega hlutafjáreign sinni í VÍS. Má skilja þetta svo að fjárfestingar þessara lífeyrissjóða snúist um að ná völdum en ekki að ávaxta, með sem bestum hætti, fé okkar landsmanna sem þeim er treyst fyrir,“ segir Jón á Facebook-síðu sinni.
Mikið umrót hefur verið hjá tryggingafélaginu undanfarið og miklar deilur í hluthafahópnum og stjórn. Ný stjórn er tekin við, með Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur fjárfesti í fararbroddi. Herdís D. Fjeldsted sagði sig úr stjórninni en hún hafði talið sig hafa stuðning sem stjórnarformann. Henni var teflt fram í stjórnina af Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem var þá einn stærsti eigandinn.
Herdís sagði í viðtali við Morgunblaðið í apríl að hún og Svanhildur Nanna hefðu ólíka sýn á stjórnarhætti skráðra og eftirlitsskyldra félaga, og vísaði sérstaklega til þeirra valdmarka sem hún teldi að væru til staðar á vettvangi stjórna skráðra og eftirlitsskyldra fyrirtækja.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins hefðu ákveðið að minnka verulega stöðu sína í VÍS í kjölfar þess að Herdís sagði sig úr stjórninni. Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður hafa allir minnkað hluti sína að undanförnu.
Í morgun sendi stjórnin frá sér yfirlýsingu til þess að svara fyrir orðróm sem hafi skapast um félagið. Það leggi hún ekki í vana sinn, en telji sig knúna til að koma þessu á framfæri vegna ummæla um stjórnarhætti og frétta af sölu stórra hluthafa á hlutum í félaginu. Þar kom fram að gagnrýni Herdísar væri byggð á ágiskunum, og að farið væri eftir öllum lögum og reglum og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti.