Stjórn VÍS segir gagnrýni fyrrverandi stjórnarformanns félagsins, Herdísar D. Fjeldsted, byggja á ágiskunum. Rík áhersla sé lögð á að öllum lögum, samþykktum, starfsreglum og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti sé fylgt til hins ítrasta við reksturinn.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn félagsins. Þar kemur fram að stjórnin hafi ekki gert það að venju sinni að svara fyrir orðróm sem skapast um félagið, en hún telji sig knúna til að koma þessu á framfæri vegna ummæla um stjórnarhætti og frétta af sölu stórra hluthafa á hlutum í félaginu.
Herdís sagði sig úr stjórn félagsins og var það meðal annars vegna óánægju með stjórnarhætti. Hún sagði í viðtali í apríl að hún og núverandi stjórnarmaður, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, hefðu ólíka sýn á stjórnarhætti skráðra og eftirlitsskyldra félgaa. Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að þrír lífeyrissjóðir hefðu ákveðið að losa um hluti í félaginu vegna óánægju með stjórnarhætti.
Í tilkynningu frá stjórn VÍS segir að gagnrýni Herdísar komi stjórninni á óvart. „Stjórnin bendir á, að stjórnarformaðurinn fyrrverandi sat aldrei stjórnarfund í félaginu eftir að ný stjórn skipti með sér verkum í kjölfar aðalfundar í mars sl. Því verður ekki betur séð en að gagnrýnin byggi á ágiskunum.“
Og í ljósi nýlegra breytinga á yfirstjórn VÍS og kaupa á hlut í fjárfestingabankanum Kviku hf. fyrr á árinu vilji stjórnin líka árétta að fjárfesting félagsins í Kviku sé skilgreind sem eign í fjárfestingarbók og svo verði áfram. „Núverandi stjórn áformar heldur ekki að skipta sér af einstökum fjárfestingum í fjárfestingarbók félagsins. Slíkt hefur aldrei komið til tals.“