Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við NBC í gær að hann hefði verið búinn að ákveða að reka James Comey, yfirmann alríkislögreglunnar FBI, „fyrir löngu“ og að rökstutt álit frá dómsmálaráðuneyti Jeff Sessions hefði ekki ráðið úrslitum.
Alríkislögreglan FBI segir að rannsókn á tengslum framboðs Trumps við Rússa, í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra, sé í fullum gangi. Skömmu áður en Comey var rekinn óskaði FBI eftir frekari fjárveitingu til að sinna verkefnum sem tengdust rannsókn á tengslum Rússa við framboð Trumps.
Trump heldur því fram að bandaríska alríkislögreglan (FBI) sé ekki að rannsaka hann og hans málefni. FBI hefur ekki staðfest það hins vegar. Hann segir að James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI, sem Trump rak í vikunni, hafi verið „athyglissjúkur“.
Comey stýrði rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum og hvort mögulega hafi verið tengsl á milli lykilmanna í framboði Trumps og rússneskra yfirvalda meðan á kosningabaráttunni stóð.
Á meðal þeirra sem vitað er að áttu reglulega fundi með Rússum í aðdraganda kosninganna í fyrra voru Michael Flynn, sem hætti sem þjóðaröryggisráðgjafi Trumps eftir 20 daga í embætti, og Jeff Sessions dómsmálaráðherra. Hann hitti Sergey Kislyak, sendiherra Rússa í Washington, í tvígang í fyrra, en eiðsvarinn frammi fyrir þingnefnd hafði hann haldið öðru fram.
Trump segir að rannsóknin sé ekkert annað en sýndarmennska. Það er þó þvert á það sem Andrew McCabe, starafndi yfirmaður FBI, lét hafa eftir sér í gær, og sagði rannsóknina vera mikilvæga og í gangi þessi misserin.