Netflix er sú sjónvarpsveita sem er með flesta áskrifendur á Íslandi á sjónvarpsmarkaði. Alls eru áskrifendur að veitunni 54.120 og markaðshlutdeild hennar er 40 prósent. Stærstu íslensku einkareknu áskriftarstöðvarnar, sjónvarpsstöðvar 365 og Sjónvarp Símans Premium, eru samanlagt með 47 prósent markaðshlutdeild í áskriftarsjónvarpi þegar ekki er tekið tillit til RÚV, sem allir landsmenn eru skyldugir til að vera með áskrift að. Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna fyrirhugaðs samruna Fjarskipta og 365 miðla sem skilað var til Samkeppniseftirlitsins 27. apríl síðastliðinn.
Þar segir að staða 365 miðla, sem á og rekur Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, hafi veikst á undanförnum árum. Þó nokkur fækkun hafi orðið á viðskiptavinum fyrirtækisins. Í samrunaskránni segir: „Staða 365 hefur þannig veikst, á sama tíma og keppinautar hafa styrkt stöðu sína. Þannig hefur töluverð fækkun orðið á fjölda heimila/kennitalna sem eru í viðskiptum hjá 365 á sl. tveimur árum[...]Þessi fækkun í fjölda viðskiptavina hefur átt sér stað þrátt fyrir að 365 hafi leitast við að svara kalli neytenda um nýjar áskriftarleiðir, og boðið upp á Maraþon Now, sem gerir viðskiptavinum kleift að gerast áskrifendur að heilum þáttaröðum, líkt og Netflix býður upp á.“ Alls eru 35.666 áskrifendur að sjónvarpsþjónustu hjá 365 miðlum samkvæmt uppgefnum upplýsingum og markaðshlutdeild fyrirtækisins á þeim markaði 26 prósent.
Samkvæmt töflu sem er birt í skjalinu er markaðshlutdeild Netflix 40 prósent á áskriftarmarkaði. Alls eru 54.120 Íslendingar áskrifendur að veitunni þrátt fyrir að hún hafi fyrst opnað fyrir þjónustu fyrir íslenskar IP-tölur í byrjun árs 2016. Ástæðan er auðvitað sú að áskrift að Netflix kostar rúmlega eitt þúsund krónur á mánuði. Ódýrasti pakkinn hjá 365 sem inniheldur Stöð 2 kostar hins vegar 9.990 krónur og sá dýrasti 22.990 krónur á mánuði.
Samkvæmt samrunaskránni er Sjónvarps Símans Premium með um 28 þúsund áskrifendur, en samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur sú tala hækkað á undanförnum mánuðum og er nú yfir 30 þúsund.
Í skjalinu er einnig greint frá því að Vodafone Play sé með um níu þúsund áskrifendur og sjö prósent markaðshlutdeild og að rúmlega fimm þúsund manns séu með áskrift af bresku sjónvarpsstöðinni Sky hérlendis.
Sé litið til tekna við mat á markaðshlutdeild þá hefur vöxtur Netflix og Símans haft mikil áhrif á tekjur 365 miðla vegna sjónvarpsáskriftarsölu. Í skjalinu segir að hlutdeild fyrirtækisins á þeim tekjumarkaði hafi dregist saman úr 38,5 prósent í febrúar 2014 í 30-35 prósent. Reiknað er með að íslenskir neytendur séu að greiða 56,3 milljónir á mánuði, og þar með 675 milljónir á ári, fyrir aðgang að erlendum efnisveitum á borð við Netflix, Hulu og Amazon. Til viðbótar sé greitt um 483 milljónir fyrir Sky.