Einar Brynjólfsson er nýr þingflokksformaður Pírata. Þetta var samþykkt einróma á þingflokksfundi Pírata sem fór fram í dag. Birgitta Jónsdóttir verður varaformaður og Smári McCarthy tekur við sem ritari. Í tilkynningu frá Pírötum segir: „Vinna stendur yfir hjá þingflokknum við endurskipulagningu á hlutverki stjórnar þingflokksins. Ásta Guðrún Helgadóttir sendi frá sér tilkynningu á Facebook fyrr í dag þess efnis að hún hefði stigið til hliðar vegna ágreinings við meirihluta þingflokksins um innra skipulag en ekki er um neinn málefnaágreining að ræða. Ásta Guðrún heldur áfram störfum sem þingmaður Pírata.“
Ásta Guðrún tilkynnti að hún hefði ákveðið að stíga til hliðar sem þingflokksformaður flokksins á Facebook-síðu sinni fyrr í dag.
„Í ljósi ágreinings milli mín og meirihluta þingflokks Pírata varðandi innra skipulag þingflokksins hef ég ákveðið að stíga til hliðar sem þingflokksformaður Pírata,“ skrifaði Ásta Guðrún. Hún segir þingmennina hafa ólíka sýn á hvert þingflokkurinn ætti að stefna og því haldi hún að það sé farsælast að annar taki við starfinu. Ágreiningurinn hafi í stuttu máli falist í innra skipulagi og verksviði þingflokksformannsins, en hún segir málið enn í ferli og því geti hún ekki tjáð sig nánar um það.
„Hlakka til að gerast óbreyttur þingmaður á ný, en þá gefst meiri tími til að vinna að þeim málefnum sem eru mér hugleikin,“ skrifaði hún að lokum.