Stjórnmál hafa verið kölluð ýmislegt. Samræðustjórnmál, sandkassaleikur, klækjastjórnmál. Allt þetta lýsir með einum eða öðrum hætti hvernig stjórnmál eru iðkuð, málefnaafstaða mótuð, henni aflað fylgis, komið til framkvæmda og svo mögulega viðhaldið, endurskoðuð eða lögð af. Þessi hringrás hefur gengið með ýmsum tilbrigðum frá örófi alda, misformlega og í nánum tengslum við samfélagslegar breytingar. Internetið hefur auðvitað valdið byltingu í samskiptamöguleikum í stjórnmálum eins og og öðrum sviðum mannlífs og stytt svo um munar boðleiðir á milli kjósenda og stjórnmálafólks. Kjósendur geta í gegnum Facebook sent stjórnmálafólki einkaskilaboð eða hellt yfir þau úr skálum reiði sinnar með stafrænum hætti án þess að standa upp frá skrifborðinu.
Ísland á að sjálfsögðu Evrópumet í internetnotkun þar sem 97% landsmanna eru reglulegir internetnotendur. Tæplega 90% þeirra sem hafa náð kosningaaldri á Íslandi eru notendur Facebook, samfélagsmiðilsins sem skilgreinir sig alls ekki sem fjölmiðil, efnisveitu eða vefsíðu. Tekjumódel Facebook, eins og margra annarra samfélagsmiðla, gengur út á sölu auglýsinga. Kosturinn við Facebook sem auglýsingamiðil (sem hann telur sig þó ekki vera) er að í krafti framsals notenda á persónuupplýsingum sínum til fyrirtækisins er hægt að greina einstaklinga í markhópa svo nákvæmlega að þær verða sérsniðnar. Þetta snið selur Facebook þeim sem vill greiða fyrir, með einhverjum takmörkunum þó eins og greinir í viðskiptaskilmálum félagsins. Stjórnmálafólk og –flokkar hafa nýtt sér þetta tæki sem gagnast ekki síður en félagatal flokkana sem er grundvöllur símaúthringinga í aðdraganda kosninga. Þannig er hægt að greiða fyrir að ákveðin skilaboð skili sér á Facebook síðu tiltekins markhóps og gjaldið er í svo í samræmi við umfang dreifingarinnar. Efnið getur verið til þess fallið að styrkja persónulega ímynd stjórnmálamanna eða til að setja málefni í mannlegt samhengi. Dæmi um þetta er þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, greiddi fyrir dreifingu á stöðufærslu sinni þar sem hún vitnaði í hughreystandi orð ungrar dóttur sinnar um að þung og erfið umfjöllun um hennar aðkomu að „lekamálinu“ ætti rætur í pólitík.
Facebook hefur fyrir nokkru útbúið sérstaka þjónustu fyrir stjórnmálafólk til þess að komast í samband við kjósendur. Fyrirtækið ráðleggur stjórnmálafólki hvernig megi best ná til kjósenda, hvers konar upplýsingar henti hvaða hópi og hvernig sé best að setja þær fram hverju sinni. Þetta getur fyrirtækið gert á grundvelli upplýsinga sem notendur hafa veitt því fullan aðgang að, með því að undirgangast notendaskilmála og friðhelgisstefnu félagsins. Á síðustu misserum hafa farið fram kosningar sem hafa vakið mikla athygli þvert á landamæri og mikið verið gert úr mætti samfélagsmiðla til þess að hafa áhrif á skoðanamyndun og kosningahegðun kjósenda. Í framhaldinu hefur umræðan um falsfréttir og ábyrgð samfélagsmiðla á dreifingu þeirra valdið því að stórir samfélagsmiðlar eins og Facebook hafa gripið til aðgerða til þess að stemma stigum við dreifingu slíkra frétta.
Kosningaaðgangur að Facebook er opinn fyrir allt stjórnmálafólk, þó svo að notendaskilmálar banni að tilteknum sjónarmiðum á borð við haturstal og hvatningum til ofbeldis verði miðlað í gegnum fyrirtækið. Væri sjónarmiðið um markaðstorg hugmynda og að kjósendur geti haft aðgang að ólíkum sjónarmiðum og tekið upplýstar ákvarðanir um ráðstöfun atkvæða í samræmi við niðurstöður þess lagt til grundvallar, ætti öllum að vera aðgengilegar allar upplýsingar. Það er þó ekki raunin, og alls ekki í gegnum Facebook. Notendur miðilsins, kjósendurnir, hafa gert það ljóst hverju þeir hafa áhuga á og hverju ekki. Internetnotkun fyrir utan Facebook, sem notendur hafa gefið heimild fyrir að sé sett í samhengi við Facebook notkun, hefur þar líka áhrif. Fyrirtækið hefur því sterka mynd af því hvernig pólitísk afstaða notenda er og hvaða málefnum þeir hafa áhuga á. Þessar upplýsingar mynda svo söluvöru Facebook til stjórnmálafólks, að miklu leyti óháð afstöðu notenda. Þeir geta þó gripið til ýmissa ráðstafana á borð við að breyta friðhelgisstillingum og að loka á að tilteknir notendur geti haft samband við þá. Þeim hefur þó hingað til ekki verið gert kleyft að átta sig á því hvað það er sem gerir þá að markhóp fyrir tilteknar sendingar.
Nú hefur verið gert aðgengilegt forrit fyrir notendur Facebook sem getur breytt þessu. Forritið sem heitir „Who targets me?“, eða hvers markhópur er ég?, er hægt að nálgast endurgjaldslaust á þessari slóð. Það virkar enn sem komið er aðeins fyrir notendur Chrome vafra, en lýsir sér þannig að það sundurgreinir upplýsingarnar sem liggja að baki birtingu efnis og upplýsir notandann um hvers vegna tiltekið efni birtist þeim og frá hverjum birtingin stafar. Þetta eru upplýsingar sem Facebook hefur ekki viljað gera aðgengilegar, enda um að ræða fyrirkomulag sem hefur reynst ábatasamt fyrir fyrirtækið.
Enn hefur ekki reynt á áhrif forritsins, en tilkoma þess er enn ein staðfesting þess að samfélagsmiðlastjórnmál er lýsandi hugtak fyrir nútímastjórnmál.