Ef fjármagna ætti stórframkvæmdir
í samgöngumálum út
frá höfuðborgarsvæðinu af vegafé
sem veitt er af fjárlögum, munu líða
áratugir þar til þær samgöngubætur
yrðu að veruleika. Ef hins vegar samstaða
næst um gjaldtöku gætu framkvæmdir
hafist með skömmum
fyrirvara eða strax á næsta ári, enda
undirbúningi sumra þeirra lokið eða
hann langt kominn.
Þetta segir Jón Gunnarsson,
ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, í svörum við skriflegum fyrirspurnum Fréttablaðsins. Jón skipaði starfshóp
um miðjan febrúar til að kanna
hvernig umfangsmiklum framkvæmdum
við stofnleiðir út frá
höfuðborgarsvæðinu verði best háttað.
Jón segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins, sem vitnað er til á forsíðu þess, að á þessu ári sé fjárveiting til nýframkvæmda á öllu landinu um ellefu milljarðar króna. Á sama tíma er starfshópurinn að vega og meta samgöngubætur sem eru af stærðargráðunni 100 milljarðar króna.
Hann segir jafnframt að pattstaða geti myndast, og framkvæmdir tafist um ár og jafnvel áratugi, ef ekki náist samstaða um veggjöld.
Þær framkvæmdir sem horft er til er meðal annars Sundabraut, ný Hvalfjarðargöng, tvöföldun eða 2+1 vegur upp í Borgarnes, tvöföldun vegarins til Keflavíkur og austur fyrir Selfoss með nýrri brú á Ölfusá, að því er fram kemur í Fréttablaðinu. „Ég nefni 100 milljarða með fyrirvara, en nákvæmari kostnaðargreining er eitt þeirra verkefna sem starfshópurinn […] er með á sinni könnu. Þegar þetta er skoðað í samhengi sést að þessar framkvæmdir myndu soga til sín álíka fjárhæð og nífalt vegafé þessa árs. Þá er nokkuð augljóst að það munu líða áratugir þar til við gætum séð áðurnefndar framkvæmdir verða að veruleika,“ segir Jón.