Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir að líklega sé örugg dagvistunarúrræði frá níu mánaða aldri barna besta leiðin til að stuðla að auknu launajafnrétti og meiri möguleikum fyrir konur í atvinnulífinu.
Þetta kemur fram í grein sem Halldór Benjamín skrifar í Morgunblaðið í dag.
„Barneignir hafa jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð áhrif á laun kvenna. Þetta sýna rannsóknir en þessu má breyta. Með því að auka dagvistunarþjónustu frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólavist hefst má jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Einnig yrði þetta til að draga úr launamun kynjanna, auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum og gera þeim kleift að sækja fram á fleiri sviðum en nú er. Til að brúa bilið sem nú er til staðar neyðast foreldrar oft til að taka launalaust leyfi frá störfum. Reynslan sýnir að sú byrði lendir oftar á konum sem þar af leiðandi verða af tækifærum á vinnumarkaði og dragast aftur úr varðandi starfsframvindu og laun samanborið við karlmenn,“ segir Halldór Benjamín.
Hann segir að Samtök atvinnulífsins leggi mikla áherslu á að það stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði. Það sé ekki eftir neinu að bíða. Nú þurfi stjórnmálamennirnir að taka við. „Samtök atvinnulífsins munu ekki láta sitt eftir liggja ef vilji er til að stíga alvöru skref til að auka jafnrétti kynjanna. Örugg dagvistunarúrræði frá níu mánaða aldri eru sennilega öflugasta verkfæri samfélagsins gegn launamun kynjanna. Yfir til ykkar, stjórnmálamenn,“ segir í greininni.