Frá því á mánudag þegar Washington Post greindi fyrst frá því að Donald J. Trump Bandaríkjaforseti hefði lekið leynilegum upplýsingum um hin svonefndu ISIS hryðjuverkasamtök, þá má segja að uppnám hafi verið í Hvíta húsinu.
Heimildarmenn Washington Post voru embættismenn sem ekki vildu koma fram undir nafni, og voru upplýsingarnar sagðar afar viðkvæmar. Trump átti að hafa deilt þeim með Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, og Sergey Kislyak, hinum umdeilda sendiherra Rússa í Washington DC.
Síðan þessi frétt birtist fór af stað atburðarás sem ekki sér fyrir endann á ennþá.
Nokkur atriði má þar telja til.
1. Donald Trump brást æfur við fréttum Washington Post. Hann sagði fréttirnar rangar og þær væru dæmi um „falskar fréttir“. Undir þetta tóku starfsmenn hans í Hvíta húsinu, meðal annars fjölmiðlafulltrúinn Sean Spicer. Á fundi í Hvíta húsinu fóru ráðgjafarnir Stephen Bannon, Mike Dubke, Sarah Sanders og fyrrnefndur Spicer afsíðis um tíma, og heyrðu blaðamenn þá öskur og læti innan úr herberginu. Eitthvað var augljóslega ekki eins og það átti að vera.
2. Wall Street Journal greindi síðar enn meira frá málinu í gær, og sagði að upplýsingarnar sem Trump lak í Rússa hafi sannarlega verið háleynilegar og taldar viðkvæmar, því þær voru komnar frá ísraelsku leyniþjónustunni Mossad og yfirvöldum í Ísrael. Líkt og var með fréttir Washington Post þá var þessu mótmælt í Hvíta húsinu.
3. Í gærkvöldi tók þetta tiltekna mál, síðan nýja stefnu. Þegar Trump viðurkenndi, fúslega, að hafa deilt viðkvæmum leynilegum upplýsingum með Rússum. Hann sagðist síðar, á Twitter aðgangi sínum, að hann hefði gert þetta af „mannúðarástæðum“ til að reyna að fá Rússa til meira samstarfs í baráttunni gegn ISIS. Fyrra tal forsetans og starfsmanna hans, um falskar fréttir, reyndist því ekki á rökum reist.
4. Í gærkvöldi og nótt, að íslenskum tíma, voru síðan sagðar fréttir af því að í minnisblaði James Comey, sem Trump rak úr starfi yfirmanns FBI á dögunum, kæmi fram að Trump hefði krafist þess að rannsókn alríkislögreglunnar á tengslum Michael Flynn, hins brottrekna fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa, við Rússa, yrði hætt. Þingmenn úr báðum flokkum, Demókrata og Repúblikana, hafa lagt fram kröfu um að öll gögn um samskipti forsetans við Comey verði lögð fram og þingmenn fái möguleika á því að greina þau. Sérfræðingar sem Washington Post ræddi við, sögðu að mögulega væri Trump að brjóta lögin með þessum afskiptum af rannsókninni, ef þessar upplýsingar reyndust réttar.
5. Repúblikaninn John McCain sagði að þessi atriði sem tengdust leka hans á upplýsingum til Rússa og meintum afskiptum af rannsókninni á tengslum Flynn við Rússa, væru alvarleg og að Bandaríkjaþing þyrfti að fá réttar upplýsingar um það sem hefði gerst. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC á hann að hafa sagt við valda gesti í kvöldverði á dögunum, að málin sem tengdust Trump, væru nú á svipuðum stalli og Watergate hneykslið, sem að lokum leiddi til þess að Richad Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, fór úr embætti.