Ólafur Ólafsson hefur birt upptöku af erindi sem hann hafði ætlað sér að flytja á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag. Ólafur kemur fyrir nefndina síðdegis vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á einkavæðingu Búnaðarbankans.
Ólafur hafði óskað eftir því að fá að halda 45 mínútna langa framsögu fyrir nefndinni, en í gær var honum tjáð að hann fengi ekki þann tíma heldur yrði framsaga hans að vera í lengsta lagi 15 mínútur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá almannatengslafyrirtækinu KOM. „Ólafur gerði ráð fyrir að rúman tíma til að gera nefndarmönnum og almenningi öllum ítarlega grein fyrir mikilvægum atriðum sem fjallað var um í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis,“ segir í fréttatilkynningunni.
Þess vegna ákvað Ólafur að taka upp alla framsöguna sem hann ætlaði að halda fyrir nefndinni, og birta opinberlega. Það hefur hann nú gert, og sendi jafnframt fundarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf þar sem hann bendir þeim á þetta. Þannig geti nefndarmenn og almenningur kynnt sér sjónarmið hans.
Ólafur kemur fyrir nefndina klukkan 15:15 í dag, og Kjarninn mun fylgjast með fundinum og greina lesendum frá því sem þar fer fram.