Raunverð fasteigna er nú orðið hærra en það hefur nokkru sinni verið. Áður hafði það farið hæst í október árið 2007, en í apríl fór raunverðið tæplega 1% yfir það. Þetta kemur fram í nýrri hagsjá frá hagfræðideild Landsbankans.
Þjóðskrá Íslands birti í gær tölur um fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu í apríl síðastliðnum, en verðið hækkaði um 2,2 prósent milli mánaða. Fjölbýli hækkaði um 2,6 prósent en sérbýli um 1,1 prósent frá því í mars. Samkvæmt tölunum hefur verð á fjölbýli hækkað um 23,2 prósent á síðasta árinu. Á sama tímabili hefur verð á sérbýli hækkað um 21,6 prósent og heildarhækkunin er 22,7 prósent á tólf mánuðum. Í hagsjánni kemur fram að lengi vel hafi árshækkun fasteignaverðs verið á bilinu átta til tíu prósent en nú sé hún komin vel yfir 20 prósenta markið.
Vegna þess hvað verðbólga hefur verið lág og stöðug síðustu þrjú ár hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella, og raunverð fasteigna hefur hækkað um 25 prósent á einu ári.
Þá kemur fram í hagsjánni að á árunum 2011 til 2013 var nokkuð sterk fylgni á milli þróunar fasteignaverðs og kaupmáttar launa. Frá miðju ári 2013 og næstu tvö ár þar á eftir tók fasteignaverðið fram úr kaupmættinum, en sú þróun gekk aðeins til baka frá vori 2015 og til vors 2016. Frá þeim tíma hefur fasteignaverðið hækkað mun hraðar en kaupmáttur launa, sérstaklega allra síðustu mánuði. Þetta gerist bæði vegna þess að hægst hefur á kaupmáttaraukningu og fasteignaverðið hefur hækkað miklu meira en áður.
„Það er ekki lengur kaupmáttaraukningin sem leikur meginhlutverk í að þrýsta verði fasteigna upp á við. Meginástæða mikilla verðhækkana undanfarið er vafalaust mikill skortur á framboði húsnæðis og ótti við að sú staða eigi eftir að versna,“ segir í hagsjánni. Kaupgeta fólks hafi almennt aukist í takt við aukinn kaupmátt og hærra atvinnustig, þannig að sífellt fleiri bítist um íbúðirnar sem koma á markaðinn. Framboð á eignum sé minna en verið hefur undanfarin tíu ár.
„Hækkun fasteignaverðs hefur verið með eindæmum síðustu mánuði og spurning hve lengi kaupendur sætta sig við þá þróun sem er í gangi,“ segir í lok hagsjárinnar.