Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verði frestað en í staðinn verði álagning komugjalda skoðuð. Þá hvetur fjárlaganefnd til þess að kannaðir verði kostir þess að eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli verði seldar.
Þetta kemur fram á vef RÚV.
Ekki eru gerðar tillögur um að heildartekjur eða útgjöld ríkissjóðs í áætluninni breytist, að því er segir í frétt RÚV, en þó er í athugasemdum lagt til að fjármunir verði færðir til. Meðal annars vegna athugasemda frá öðrum þingnefndum.
Ein veigamesta breytingin í ríkisfjármálaáætluninni snýr að ferðaþjónustunni en Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur kynnt að virðisaukaskattur verði hækkaður úr neðra þrepi í 22.5 prósent hinn 1. júlí á næsta ári. Í ríkisfjármálaáætluninni var gefinn 15 mánaða fyrirvari, en nú er útlit að ekki verði af þessu.
Benedikt skrifaði ítarlega grein á vef Kjarnans þar sem farið var yfir þessi mál. „Ferðaþjónusta hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Hún hefur á þróunarskeiði sínu notið þess að vera í lægra skattþrepi virðisaukaskatts. Skattahagræði vegna þessa hefur verið metið um 16 milljarðar króna ef litið er á gistingu, fólksflutninga og afþreyingu, en auk þess milli fimm og sex milljarðar króna í veitingarekstri. Nú þegar greinin er orðin stærsta gjaldeyrisaflandi grein landsins og vex um tugi prósenta á hverju ári er eðlilegt að virðisaukaskattur sé sá sami í greininni og í öðrum geirum,“ sagði Benedikt meðal annars.
Samandregið sagði hann að ástæðan fyrir hækkun á virðisaukaskattinum væri meðal annars sú að ytri aðstæður kölluðu ekki á að hún greinin fengi skattaafslátt.
„Að öllu þessu sögðu eru helstu niðurstöðurnar þessar:
1. Efnahagslegar aðstæður þjóðarbúsins og vöxtur ferðaþjónustunnar gera það saman að verkum að ekki er lengur ástæða fyrir skattalega ívilnun til greinarinnar.
2. Greiningar benda til þess að áfram muni vöxtur ferðaþjónustu verða kröftugur.
3. Einfaldara skattkerfi og færri undanþágur bæta skilvirkni tekjuöflunar ríkisins.
4. Lækkun almenns þreps kemur neytendum og atvinnulífinu til góða,“ sagði Benedikt í lokaorðum greinar sinnar.
Meirihluti fjárlaganefndar vill horfa til þess að nýta heimildir í lögum og selja Keflavíkurflugvöll, til að fjármagna samgönguframkvæmdir og styrkja stöðu ríkissjóðs, að því er fram kom á vef RÚV.