Alls er gert ráð fyrir að samruni 365 miðla og Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, skili kostnaðarsamlegð upp á rúman milljarð króna. Þar af gera áætlanir ráð fyrir að sparnaður í launum og starfsmannakostnaði verði um 275 milljónir króna á ári og að stöðugildum þeirra eininga sem færast yfir til Fjarskipta frá 365 miðlum muni fækka um 41. Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna samruna Fjarskipta og 365 miðla sem birt var á vef Samkeppniseftirlitsins 10. maí síðastliðinn.
Orðrétt segir þar: „Vegna samlegðaráhrifa er það mat Fjarskipta að stöðugildum á einingum sem færast yfir til Fjarskipta hf. frá 365 muni fækka um 41.“ Með samrunanum eykst velta Fjarskipta um 8,5 milljarða króna og stöðugildum á Íslandi fjölgar um 68 prósent, úr 305 stöðugildum í 512. Í skránni segir einnig að gera megi ráð fyrir einhverri tekjusamlegð. „Forsendur Fjarskipta gera ráð fyrir um 80 milljónum á ári í tekjusamlegð sem kemur til m.a. vegna krosssölu á stökum vörum milli viðskiptavinahópa og bættrar nýtinga á auglýsingasöluteymi 365. Tekið skal fram að þrátt fyrir að áætlanir geri ráð fyrir krosssölu er jafnframt áformað að viðskiptavinum sameinaðs fyrirtækis standi til boða að kaupa umræddar vörur stakar.“
Í fyrstu útgáfunni af samrunaskránni sem eftirlitið birti voru trúnaðarupplýsingar úr skránni aðgengilegar, þar á meðal upplýsingar um hversu mörg stöðugildi myndu hverfa við samrunann. Ný útgáfa án trúnaðarupplýsinganna var sett á vefinn í stað hinnar síðar sama dag. Kjarninn hefur upprunalegu útgáfuna undir höndum.
Fjarskipti er að kaupa alla fjarskiptaþjónustu sem 365 veitir. Auk þess fara allar sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 miðla yfir til Fjarskipta. Þar á meðal eru Stöð 2, allar íþróttarásir, Bylgjan, FM957 og X-ið. Til viðbótar var ákveðið á lokasprettinum, líkt og áður sagði, að fréttavefurinn Vísir.is og fréttastofa ljósvakamiðla myndi fylgja með í kaupunum. Ekki er tiltekið í skránni hvar á hvaða einingum stöðugildum verði fækkað.
Kaupverðið er 7.725-7.875 milljónir króna. Það greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum. 365 miðlar verða í kjölfarið næst stærsti eigandi Fjarskipta.
Mikil tæknileg samlegð
Í samrunaskránni segir að til viðbótar við kostnaðarsamlegð vegna fækkunar á starfsfólki eigi að nást fram 562 milljóna króna í tæknilegri samlegð. Samlegðin felst í því að 365, sem á ekki eigin fjarskiptakerfi, hættir að kaupa þjónustu af Símanum og fer inn á kerfi Vodafone sem er þegar til staðar. Þrátt fyrir að reka fjarskiptaþjónustu þá hefur 365 ekki rekið sitt eigið fjarskiptakerfi. Samkvæmt því sem fram kemur í samrunaskránni er það vegna þess að fyrirtækið hefur ekki haft fjárhagslega getu til þess að byggja það upp, auk þess sem „vandamál í þjónustu s.s. reikningagerð og ferlum gert að verkum að fyrirtækið hefur ekki náð þeim markmiðum, sem að var stefnt með samruna félagsins við Tal.. Forsvarsmönnum 365 þykir einsýnt að ekki sé að verða breyting á þessu.“
Vegna þessa hefur 365 gert samninga við Símann um „sjónvarpsdreifingu, umboðssölu á sjónvarpsþjónustu, heildsölu á aðgangi að einstaka íþróttakappleikjum þ.e. PPV, farsímaþjónustu, gagnaflutning um internetið, samning við Gagnaveitu Reykjavíkur um gagnaflutningsþjónustu yfir ljósleiðara, samning við Mílu um bitastraumsaðgang og samning við Símafélagið um fjarskiptaþjónustu og við Vodafone um sjónvarpsdreifingu, umboðsölu á sjónvarpsþjónustu, heildsölu á aðgangi að einstaka íþróttakappleikjum þ.e. PPV.“ Í samrunaskránni kemur m.a. fram að 365 kaupir sem stendur um sex þúsund IPTV sjónvarpstengingar af Símanum.
Langflestir áskrifendur með Skemmtipakkann
Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að innkoma erlendra efnisveita á borð við Netflix á íslenskan sjónvarpsmarkað og hröð framþróun í tækni og neyslu afþreyingarefnis hefur gert það að verkum að mun færri heimili kaupa áskrift að Stöð 2 og öðrum sjónvarpsstöðvum 365 en gerðu það fyrir tveimur árum.
Í samrunaskránni segir að staða 365 miðla, sem á og rekur Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, hafi veikst á undanförnum árum. Þó nokkur fækkun hafi orðið á viðskiptavinum fyrirtækisins. Í samrunaskránni segir: „Staða 365 hefur þannig veikst, á sama tíma og keppinautar hafa styrkt stöðu sína. Þannig hefur töluverð fækkun orðið á fjölda heimila/kennitalna sem eru í viðskiptum hjá 365 á sl. tveimur árum[...]Þessi fækkun í fjölda viðskiptavina hefur átt sér stað þrátt fyrir að 365 hafi leitast við að svara kalli neytenda um nýjar áskriftarleiðir, og boðið upp á Maraþon Now, sem gerir viðskiptavinum kleift að gerast áskrifendur að heilum þáttaröðum, líkt og Netflix býður upp á.“ Alls eru 35.666 áskrifendur að sjónvarpsþjónustu hjá 365 miðlum samkvæmt uppgefnum upplýsingum og markaðshlutdeild fyrirtækisins á þeim markaði 26 prósent.
Í upprunalegu samrunaskránni er hægt að sjá hvernig þessir áskrifendur skiptast niður á mismunandi áskrifarleiðir og stöðvar. Þar kemur m.a. fram að rúmur helmingur áskrifenda að sjónvarpsþjónustu 365 eru með hinn svokallaða Skemmtipakka, eða 18.993 manns. Hann kostar 9.990 krónur á mánuði. Mun færri eru með stærstu og dýrustu pakkanna sem 365 býður upp á. Þannig eru áskrifendur að Stórapakkanum, sem kostar 19.490 krónur á mánuði, 5.368 og 1.363 eru með Risapakkann, sem kostar 22.990 krónur á mánuði. Áskrifendur að Sportpakkanum, sem veitir aðgang að Stöð 2 Sport, hliðarstöðvum hennar og nokkrum erlendum íþróttastöðvum, eru nú 2.994 talsins. Þá eru 1.107 manns áskrifendur að Golfstöðinni og 493 kaupa ódýrasta pakkann sem 365 býður upp á, hinn svokallaða Fjölskyldupakka. Hann kostar 3.290 krónur á mánuði. Áskrifendur að Maraþon Now, nokkurs konar Netflix þjónustu 365 miðla, eru einungis 919 talsins samkvæmt samrunaskránni. Til samanburðar má nefna að alls eru íslenskir áskrifendur að Netflix 54.120 talsins, en sú áskrift kostar rúmlega eitt þúsund krónur á mánuði.
Í fjárfestakynningu sem Fjarskipti héldu í kjölfar þess að tilkynnt var um söluna kom fram að tekjur þeirra eininga sem keyptar verða af 365 hafi verið 8,5 milljarðar króna á árinu 2016. Þar af voru fjarskiptatekjur 1,7 milljarðar króna og auglýsingatekjur voru tæplega 1,8 milljarðar króna. Uppistaðan í tekjuflæðinu voru áskriftatekjur sjónvarps. Þær voru 58 prósent allra tekna, eða tæpir fimm milljarðar króna.
Það var líka tiltekið sem einn helst áhættuþátturinn í viðskiptunum að viðskiptavinum í áskriftarsjónvarpi muni fækka með aukinni samkeppni frá erlendum efnisveitum. Þeim viðskiptavinum hefur nú þegar fækkað mjög á undanförnum árum.