Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segir ekki tímabært að svara því hvort hún muni bjóða sig fram til formanns flokksins á næsta flokksþingi, sem haldið verður í síðasta lagi í janúar næstkomandi. Hún muni kanna stuðning sinn og bakland. „Ég á bara eftir að fara yfir það og kanna hver staða mín er innan flokksins.“ Þetta kom fram í máli hennar í Silfrinu í dag.
Hún sagði enn fremur að sá árangur sem náðist í lausn á málefnum þrotabúa föllnu bankanna á síðasta kjörtímabili hafi verið vegna Framsóknarflokksins. Hann hafi teiknað upp leiðina sem hafi verið farin í því ferli, sett upp stöðugleikaskilyrðin og hannað hinn svokallaða stöðugleikaskatt, sem ekki reyndi á á endanum. Lilja segir að ekkert af þessu hefði gerst nema fyrir Framsóknarflokkinn.
Ískalt milli formanns og fyrrverandi formanns
Miklar deilur hafa verið í Framsóknarflokknum undanfarin misseri, eða allt frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þurfti að segja af sér sem forsætisráðherra í kjölfar Wintris-málsins í byrjun apríl 2016. Opinberað hefur verið að þingflokkur Framsóknarflokksins var búinn að taka ákvörðun um að setja Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra á þingflokksfundi 5. apríl 2016. Ástæðan var trúnaðarbrestur milli þingflokksins og Sigmundar Davíðs vegna Wintris-málsins og eftirmála þess. Opinberlega var greint frá málinu á þann veg að Sigmundur Davíð hefði sjálfur lagt fram tillögu um að stíga til hliðar, en ekkert sagt frá því að þingflokkurinn hafi verið búinn að taka þá ákvörðun fyrir hann.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sem tók við forsætisráðherraembættinu, felldi síðan Sigmund Davíð í formannskjöri í byrjun október 2016 á hádramatískan hátt. Síðan þá hefur ekki gróið um heilt milli stríðandi fylkinga í flokknum og ísköldu andar enn milli Sigmundar Davíðs og Sigurðar Inga.
Framsóknarflokkurinn beið afhroð í síðustu þingkosningum og fékk sína verstu kosningu í 100 ára sögu flokksins. Fylgi flokksins hefur ekki aukist að neinu ráði samkvæmt skoðanakönnunum það sem af er þessu kjörtímabili.
Sigmundur Davíð vill ekki svara því hvort hann fari í formannsframboð
Í gær fór fram vorfundur Framsóknarflokksins þar sem fylkingar annars vegar sitjandi formann og hins vegar fyrrverandi formann tókust á.
Sigurður Ingi hélt ræðu við upphaf fundar og kallaði eftir meiri samstöðu í þingflokki Framsóknarflokksins. Hann gagnrýndi þá sem hefðu gagnrýnt niðurstöðu síðasta flokksþings, þegar Sigurður Ingi felldi Sigmund Davíð úr formannsstóli. Hollt og gott væri að flokksmenn væru ósammála og að þeir rökræddu um málin, en ákvörðun sé þó alltaf tekin með lýðræðislegum hætti á endanum og það verði að virða.
Samkvæmt endursögn RÚV úr ræðu Sigurðar Inga sagði hann svo: „ En það virðist ekki öllum gefið að geta sætt sig við það sem flokksmenn ákveða með lýðræðislegum aðferðum. Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa hvaða augum sumir líta flokkinn okkar og ákvarðanir okkar flokksmanna. Þar segir einhver að rán hafi átt sér stað í haust og þeir, sem á að hafa verið rænt frá, fyrirgefi ekki slíkan gjörning, ekki núna, ekki seinna! Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hefur verið viðhaft af minna tilefni. Það sem ég spyr mig að er; er þetta samvinnumaður sem talar svona, þetta er ekki sérlega framsóknarleg nálgun? Og hvaða fyrirgefningu er verið að tala um, við hvern á að segja „sorrí“? Hin almenna framsóknarmann, meirihluta fulltrúa á flokksþingi? Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt.“
Sigmundur Davíð sagði við RÚV að honum hafi þótt ræða Sigurðar Inga „ekkert sérstök“. Það væri ekki búið að gera upp það sem hefði átt sér stað á síðasta flokksþingi og það hafi áhrif á sambandið milli hans og sitjandi formanns. Miðstjórnarfundurinn samþykkti að halda flokksþing í janúar næstkomandi og sagði Sigmundur Davíð það vera „sigur“. Hann vildi ekki svara því með afgerandi hætti hvort hann myndi bjóða sig fram til formanns á ný á því flokksþingi. „Ég ætla að meta það hvernig málin þróast næstu misserin,“ sagði Sigmundur Davíð við RÚV.