Sjálfstæðismenn vilja auka framboð á lóðum, leggja niður byggingaréttargjald, forgangsraða í þágu viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi Reykjavíkur í stað gæluverkefna, fjölga valkostum í rekstrarformi skóla og lækka útsvar. Þetta eru megin ályktanir sem samþykktar voru á málefnaþingi flokksins sem haldið var í Valhöll um helgina. Málþingið markaði upphaf kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem fram fara 26. maí 2018, eða eftir rúmt ár.
Flokkurinn hefur gengið í gegnum mikið hnignunartímabil í borginni á undanförnum árum eftir að hafa oft verið með um og yfir 50 prósent fylgi þar áratugum saman. Í kosningunum 2010 fékk flokkurinn 33 prósent og í síðustu kosningum, sem fram fóru 2014, fékk hann 25,7 prósent. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins situr nú í minnihluta í borgarstjórn ásamt Framsókn og flugvallarvinum. Halldór Halldórsson var leiddi flokkinn í gegnum síðustu kosningar og er oddviti hans í borgarstjórn. Viðmælendur Kjarnans innan Sjálfstæðisflokksins segja að mikill vilji sé til þess að bjóða fram nýja einstaklinga í forystu flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum.
Samgöngur, vegakerfi og rekstrarform skóla
Samkvæmt tilkynningu sóttu um 250 manns málþingið. Ýmsir framámenn í flokknum ávörpuðu það. Þeir sem fluttu sérstök ávörp voru Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson, oddviti flokksins í Reykjavík, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Gísli Kr. Björnsson, formaður fulltrúaráðsins Varðar, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins.
Unnið var að stefnumótun í sex málefnanefndum og afrakstur hennar verður grundvöllur að stefnu flokksins í komandi kosningum. Skipulagsmál eru fyrirferðamikil í þeirri stefnu. Í ályktun Sjálfstæðisflokksins segir að skipulagsmál séu ekki kort og tölur, þau snúist um lífið sjálft. „Sjálfstæðismenn vilja tryggja að ávallt sé nægjanlegt framboð af lóðum til sölu og að byggingarréttargjald verði fellt niður. Þannig verði tryggt að lóðir í nýbyggingarhverfum séu seldar á kostnaðarverði.“
Þá segir flokkurinn að framtíðarbyggingarland Reykjavíkur til norðurs og austurs hafi ekki verið opnað með stofnbrautum, sem hafi valdið umferðartöfum og stuðlað að hækkandi fasteignaverði. „Þá kemur fram að öryggi í umferðarmálum hafi vikið fyrir gæluverkefnum undir stjórn núverandi meirihluta. Nauðsynlegt sé að forgangsraða í þágu viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi höfuðborgarinnar með öryggi að leiðarljósi.“
Í skólamálum vilja Sjálfstæðismenn „auka fjölbreytni í skólastarfi og fjölga valkostum í námsleiðum og rekstrarformi skóla.“ Meta þurfi hvort skóli án aðgreiningar hafi skilað tilætluðum árangri og hvaða áhrif sú stefna hafi haft á kennara, nemendur og foreldra þeirra. „Áhersla verði færð frá miðstýringu í átt að auknu sjálfstæði og sveigjanleika í skólastarfi. Þá er lagt til að fjármagn til náms fylgi hverjum nemanda og að stjórnendur hafi svigrúm til að stýra skólum sínum með ólíkum áherslum. Þannig verði fjölbreytni í skólastarfi aukin og valkostum fjölgað.“
Að venju leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að útsvar, verði lækkað en það er nú eins hátt og leyfilegt er í Reykjavík. „Markmið til lengri tíma er samkvæmt ályktun þingsins að útsvarið fari í lögbundið lágmark. Mikilvægt sé að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar og hverfa frá þeim lausatökum sem viðgengist hafa í tíð núverandi meirihluta.“
Þá lýsir Sjálfstæðisflokkurinn sig andsnúinn því að borgarfulltrúum verði fjölgað úr 15 í að minnsta kosti 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar.