Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði Jónu Sólveigu Elínardóttur, þingmann Viðreisnar, hvort ekki væri heiðarlegt af Viðreisn að segja sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu. Þetta gerðist á Alþingi í morgun, í sérstakri umræðu um Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Jóna Sólveig, sem er formaður utanríkismálanefndar Alþingis, byrjaði ræðu sína á því að þakka málshefjandanum Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni VG, fyrir umræðuna. „Ég er hrædd um að ef hún hefði beint spurningum til mín hefði hún fengið dálítið önnur svör en þau sem hæstvirtur ráðherra veitti henni, en það er kannski ekki að furða, enda erum við hæstvirtur ráðherra ekki í sama flokki. Hæstvirtur ráðherra er í flokki sem talar fyrir áframhaldandi aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES en ég er í Viðreisn sem er galopin fyrir því að kanna og kynna síðan fyrir landsmönnum þá kosti sem fylgja fullri aðild að ESB, og leyfa þjóðinni síðan sjálfri að velja hvað hún vill gera í þeim efnum.“
Þetta þótti Lilju með „algjörum ólíkindum, að formaður utanríkismálanefndar komi hér í pontu og geri hreinlega lítið úr stefnu utanríkisráðherra þjóðarinnar hvað þennan málaflokk varðar. Væri ekki miklu heiðarlegra af Viðreisn að segja sig frá þessu ríkisstjórnarsamstarfi? Mér finnst þetta óboðlegt,“ sagði hún þegar hún kom í ræðustól Alþingis.
Jóna Sólveig kom aftur í ræðustól og sagði rétt að árétta að það skipti máli að ólíkum sjónarmiðum ólíkra flokka með ólíka sýn væri haldið á lofti í þingsal. „Til þess erum við kjörin og aðeins þannig virkar lýðræðið. Að sjálfsögðu virði ég hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisstefnu landsins og hún er mjög vel sett fram í stjórnarsáttmála. En hún á ekki að hamla málfrelsi og skoðanafrelsi þingmanna séu þær settar fram á málefnalegan hátt.“
Lilja sagði að sjálfsögðu ríkja málfrelsi og það ætti að skiptast á skoðunum. Hins vegar kallaðist það á einfaldri íslensku kosningasvik, þegar flokkur hefði kynnt stefnu eins og viljann til að ganga í Evrópusambandið en engin af þeim markmiðum náist í ríkisstjórnarsamstarfi. Þingmenn Viðreisnar voru ósáttir við Lilju og kölluðu fram í ræðu hennar. „Það er rosaleg viðkvæmni hérna. Þingmenn Viðreisnar koma hingað og leyfa ekki viðkomandi þingmanni að klára mál sitt. Það sýnir að maður snertir við einhverjum afskaplega viðkvæmum bletti. Það er auðvitað ekki nógu gott fyrir háttvirta þingmenn Viðreisnar.“
Áhrifin á Ísland
Rósa Björk óskaði eftir umræðunni um Brexit og áhrifin á Ísland í janúar síðastliðnum, en umræðan átti sér stað í dag. Hún sagðist vilja vita hvað íslensk stjórnvöld hefðu gert til að leggja grunn að framtíðarsamskiptum við Breta, við hverja hafi verið talað innan bresku stjórnsýslunnar og hvaða málefni íslensk stjórnvöld vilji leggja áherslu á ef stefnan sé sú að ná sérsamningi við Bretland.
Rósa nefndi einnig það sem fram kemur í skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um utanríkisstefnu Íslands að væntingar gætu verið um enn betri aðgang að breskum mörkuðum en áður.
„Þetta hefur mér þótt veruleg bjartsýni og því er illa svarað á hverju þessi mikla bjartsýni er byggð. Því miður verð ég að segja að allt er varðar Brexit, sérstaklega í skýrslu ráðherrans um utanríkismál, er almennt orðað og frekar loðið.“
Guðlaugur Þór ítrekaði mikilvægi málsins en einnig það að Ísland ræður ekki hvernig viðskilnaði Bretlands við Evrópusambandið verður háttað. Þó væri hægt að hafa áhrif og „einmitt þess vegna hef ég síðustu mánuði lagt allt kapp á að eiga viðræður við þá aðila sem að þessum málum koma.“ Hann hafi rætt við utanríkismálastjóra og Brexit-stjóra ESB, auk utanríkisráðherra Þýskalands og Bretlands.
„Auðvitað blasa við margvísleg úrlausnarefni. Það er engum vafa undirorpið að um er að ræða miklar áskoranir í ákveðnum efnum en í þessari stöðu felast líka tækifæri. Þau verða ekki nýtt með því að sitja og bíða þess sem verða vill. Innan stjórnsýslunnar hefur á síðustu mánuðum verið unnið hörðum höndum að því að kortleggja hagsmuni okkar með tilliti til útgöngu Breta. Þótt enn sé tiltölulega skammt á veg komið í ferlinu er líklegt að niðurstaða samninga Breta og ESB verði fríverslunarsamningur af nýrri kynslóð slíkra samninga.“