Aðgerðarhópur fjögurra ráðherra vegna neyðarástands í húsnæðismálum vinnur að fjórtán mismunandi aðgerðum til að bregðast við neyðarástandi á íslenskum húsnæðismarkaði. Ein þeirra aðgerða snýst um að ríkið selji sveitarfélögum lóðir til íbúðauppbyggingar.
Þetta kemur fram í pistli sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur birt á heimasíðu Viðreisnar þar sem hann fer yfir loforð flokksins og efndir það sem af er kjörtímabili.
Samkvæmt heimildum Kjarnans mun aðgerðarhópurinn kynna aðgerðaráætlun sína í þessari viku eða snemma í þeirri næstu. Á meðal þess sem þar verður lagt til er að byggingarreglugerðir verði einfaldaðar, að gjaldtöku sveitarfélaga vegna lóðaúthlutana verði takmörkuð eða breytt og frekari takmarkanir á útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna til að mæta húsnæðisvanda Íslendinga.
Auk þess er búist við því að bætt verði enn frekar í aðgerðir til að tryggja tekjulágum húsnæði, til dæmis með áframhaldinu uppbyggingu svokallaðra leiguheimila.
Vantar níu þúsund íbúðir
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðuna á húsnæðismarkaði í sjónvarpsþætti sínum á Hringbraut í apríl og í fréttaskýringu sem birt var í kjölfarið.
Þar kom fram að fjórar samhangandi ástæður hafa gert það að verkum að ungt og/eða efnalítið fólk getur ekki komist inn á húsnæðismarkað, þrátt fyrir langvinnt góðæri. Allar stuðla þær að því að aðrir hópar hagnast á neyð þeirra sem koma ekki þaki yfir höfuðið. Farið var yfir málið í nýjum sjónvarpsþætti Kjarnans.
Meginástæðan er skortur á framboði. Mestu sökina þar bera stærstu sveitarfélög landsins, sem hafa ekki tryggt nægt byggingarland til að halda í við eftirspurn eftir húsnæði. Nýleg greining Íbúðalánasjóðs, sem gerð var fyrir aðgerðarhóp félags- og jafnréttismálaráðherra, sýndi þessa stöðu svart á hvítu. Samkvæmt henni vantar nú þegar 4.600 íbúðir og byggja þarf níu þúsund íbúðir til loka árs 2018 til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.
Hinar þrjár ástæðurnar sem leggja sitt að mörkum til að skapa það ástand sem er á húsnæðismarkaði eru gríðarstór leigufélög sem rekin eru með hagnaðarsjónarmiði, útleiga á þúsundum íbúða til ferðamanna sem þá nýtast ekki íbúum landsins og aðgerðir ríkisstjórna á borð við Leiðréttinguna, sem olli ruðningsáhrifum á húsnæðismarkaði og stuðlaði þannig að hærra húsnæðisverði en ella hefði orðið.
Vill takmarka Airbnb
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í þættinum að meginvandinn væri framboðsvandi og að hraða þurfi framkvæmdum. Í því samhengi sé verið að skoða að selja stórar jarðeignir á höfuðborgarsvæðinu sem í dag eru í eigu ríkisins til sveitarfélaga svo hægt sé að nota þær undir íbúðabyggðir. Þegar hafi Vífilstaðarlandið í Garðabæ verið selt og einnig sé horft á t.d. Keldnaholt, Landhelgisgæslureit, Veðurstofureit og landið í kringum gamla SS-húsið í Laugardal í þessu samhengi. Þorsteinn sagði einnig breyta þyrfti byggingarreglugerðum, taka á gjaldtöku sveitarfélaga, halda áfram öflugri uppbyggingu leiguheimila og takmarka Airbnb-útleigu.