Ástæður þess að það er neyðarástand á íslenska húsnæðismarkaðnum

Fjórar samhangandi ástæður hafa gert það að verkum að ungt og/eða efnalítið fólk getur ekki komist inn á húsnæðismarkað, þrátt fyrir langvinnt góðæri. Allar stuðla þær að því að aðrir hópar hagnast á neyð þeirra sem koma ekki þaki yfir höfuðið. Farið var yfir málið í nýjum sjónvarpsþætti Kjarnans.

Í mars voru birtar tölur um hag­vöxt á Ísland­i. Á síð­asta ári var hann sá mesti síðan árið 2007, eða 7,2 pró­sent. Eitt land í heim­inum var með meiri hag­vöxt á árinu 2016, Ind­land. Ásamt ferða­þjón­ustu er aukin einka­neysla helsta ástæða hins mikla hag­vaxt­ar. Gríð­ar­legar launa­hækk­anir gerðu það að verkum að kaup­máttur hefur auk­ist um 15 pró­sent frá því í maí 2015. Það er um það bil sú aukn­ing sem eðli­legt væri að taka út á tíu árum.

Það er því góð­æri á Íslandi sam­kvæmt öllum hag­töl­um. Og það hefur staðið yfir nær óslitið frá árin­u 2011. Sam­t hefur rík­is­stjórn lands­ins sett saman aðgerð­ar­hóp sem á að bregð­ast við neyð­ar­á­standi á hús­næð­is­mark­aði. Þor­steinn Víglunds­son, ráð­herra hús­næð­is­mála, sagði í sam­tali við Kjarn­ann 23. febr­úar að aðstæður væru svo knýj­andi að vinna hóps­ins þyrfti að vera lokið innan mán­að­ar. Sú vinna hefur nú dreg­ist á langin eftir því sem aðgerð­ar­hóp­ur­inn hefur kafað dýpra ofan í vand­ann. 

Hvernig má það vera að það ríki góð­æri þegar sífellt stærri hópur lands­manna getur ekki komið sér þaki yfir höf­uð­ið? Þeg­ar fjórir af hverjum tíu full­orðnum ein­stak­lingum á aldr­inum 20-29 ára búa enn heima hjá sér? Þegar sífellt fleiri lands­menn búa í hjól­hýsum?

Fyrir því eru nokkar ástæð­ur. Flestar þeirra hafa legið fyrir í nokkuð langan tíma án þess að brugð­ist hafi verið við þeim með aðgerðum sem miða að því að upp­fylla þá grunn­þörf manns­ins að eiga sér heim­il­i. 

Hús­næð­is­mál voru umræðu­efni fyrsta þáttar Kjarn­ans á sjón­varps­stöð­inni Hring­braut, sem fór í loftið í gær­kvöldi. Þar fóru þátt­ar­stjórn­endur og rit­stjórar Kjarn­ans, Þórður Snær Júl­í­us­son og Þór­unn Elísa­bet Boga­dótt­ir, yfir helstu ástæður þess að ástandið er eins og það er, á hvaða hópum það bitnar hel­st, hverjir græða á því og og hvað sé hægt að gera? Þor­steinn Víglunds­son, ráð­herra hús­næð­is­mála, var gestur þátt­ar­ins og sagði frá þeim aðgerðum sem hægt sé að grípa til.

Verðið hækkar stans­laust og fram­boðið er allt of lítið

Stærsta ástæðan er sú að hér er byggt of lítið af hús­næði, sér­stak­lega á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, til að mæta eft­ir­spurn. Nokkrir af stærstu árgöngum Íslands­sög­unnar fædd­ust snemma á tíunda ára­tugn­um. Þessir árgangar eru nú að verða full­orðið fólk og það full­orðna fólk berst nú við alla hina sem er ekki til hús­næði fyrir um allar íbúðir sem koma á mark­að. Þeim hefur reyndar fækkað frekar en fjölgað á und­an­förnum árum vegna fjölda þeirra sem not­aðar eru undir gist­ingu fyrir ferða­menn, en komum betur að því síð­ar.

Lög­málið um fram­boð og eft­ir­spurn segir okkur að ef lítið er til af vöru sem margir vilja kaupa þá hækkar hún skarpt í verði. Og það er nákvæm­lega það sem hefur gerst á íslenska hús­næð­is­mark­aðn­um. Frá árs­lokum 2010 hefur hús­næð­is­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hækkað um 78 pró­sent. Leigu­verð hefur á sama tíma hækkað um 64 pró­sent.

Allar spár eru sam­mála um að verðið muni ekki gera neitt annað en að hækka á næstu árum, enda vantar mörg þús­und íbúðir til að svala eft­ir­spurn. ­Arion ­banki komst að þeirri nið­ur­stöðu í nýlegri grein­ingu sinni að það muni þurfa að byggja átta þús­und íbúðir á næstu þremur árum. Lík­lega þarf um 1.800 til 2.000 nýjar íbúðir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu á ári en á á síð­ustu þremur árum hefur fjölgun þeirra á ári verið undir eitt þús­und. Til sam­an­burðar má benda á að jafn margar bætt­ust við á land­inu öllu árið 2007 og sam­tals á tíma­bil­inu 2009-2015. 

Ný grein­ing Íbúða­lána­sjóðs, sem gerða var fyrir aðgerð­ar­hóp félags- og jafn­rétt­is­mála­ráð­herra, sýnir enn svart­ari stöðu. Sam­kvæmt henni vantar nú þegar 4.600 íbúðir og byggja þarf níu þús­und íbúðir til loka árs 2018 til að ná jafn­vægi milli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar. 

Íbúða­lána­sjóður telur líka að um eitt þús­und íbúðir séu í sölu um þessar mund­ir, en þær ættu að vera um 3.000 miðað við stærð mark­að­ar­ins. Ekki hafa verið jafn fáar íbúðir til sölu og nú í ell­efu ár og með­al­sölu­tími hefur aldrei verið styttri. Eignir selj­ast nú oft á sýn­ing­ar­degi. Til að bæta gráu ofan á svart þá eru þær íbúðir sem eru í bygg­ingu flestar í verð­flokkum sem þeir hópar sem eru í mestu neyð­inni eiga ekki mögu­leika á að kaupa. Íslend­ingar eru til dæmis að byggja hærra hlut­fall af íbúðum sem eru stærri en 100 fer­metrar en við vorum að gera fyrir tíu árum síð­an.

Sveit­ar­fé­lögin benda á að þau séu að fjölga íbúðum eins hratt og þau geta, og innan þeirra rétt­mætu þétt­ing­ar­mark­miða sem þau hafa sett sér. Það er nauð­syn­legt að þétta höf­uð­borg­ar­svæðið umtals­vert, enda umfang þess á stærð við banda­ríska millj­óna­borg. Það gengur hins vegar afar hægt. Þrátt fyrir að íbúðir sem sam­þykktar eru í deiliskipu­lagi í Reykja­vík séu fimm þús­und og íbúðir í skipu­lagi sem er í vinnslu séu 4.300 þá var ein­ungis hafin bygg­ing á 876 íbúðum á síð­ast­liðnum 12 mán­uð­um.

Allar grein­ingar sýna að staða á hús­næð­is­mark­aði ræðst að miklu leyti á tekj­um. Þ.e. þeir sem eru með minni tekjur eru í meiri vand­ræðum með að koma sér inn á eign­ar­mark­að og búa við mun meira óör­yggi í hús­næð­is­málum og leigu­mark­aði. Þetta hljómar örugg­lega rök­rétt staða í eyrum flestra í ljósi þess að við búum í mark­aðs­drifnu sam­fé­lagi en stað­reyndin er samt sem áður sú að eftir hrun hefur þeim fjölgað mjög sem til­heyra lægstu tekju­bil­unum sem eru á almennum leigu­mark­aði. Og leigj­endur eiga mun erf­ið­ara með að láta enda ná saman en þeir sem eiga hús­næði.

Dæmisaga: Sagan af Jóni og Sigurjóni

Jón og Sigurjón eru samstarfsfélagar og með sömu meðallaunin sem háskólamenntaðir millistjórnendur í ráðsettu fyrirtæki. Árið 2011 gáfu foreldrar Jóns honum sex milljónir króna í útborgun fyrir 30 milljóna króna íbúð. Foreldrar Sigurjóns eru ekki í neinni aðstöðu til að aðstoða hann fjárhagslega, vegna þess að þau eiga engar eignir né sparnað. Sigurjón er því á leigumarkaði.

Hver er staða þeirra í dag?

Íbúðin sem Jón keypti sér er nú metin á 53,4 milljónir króna. Hann er búinn að greiða niður fimm milljónir af láninu sem hann tók með nýtingu séreignarsparnaðarúrræðis og skuldar því um 19 milljónir króna. Ef Jón myndi selja íbúðina sína í dag ætti hann 34,4 milljónir króna, að meðtaldri peningagjöfinni frá foreldrum hans. Jón gæti því endurgreitt foreldrum sínum alla upphæðina sem hann fékk frá þeim en samt átt 28,4 milljónir króna.

Sigurjón er enn á leigumarkaði þar sem leiguverð hefur hækkað um 63 prósent. Hann er því enn að eyða stórum hluta af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað og nær ekki að leggja neitt sem máli skiptir fyrir, jafnvel þótt laun og kaupmáttur hafi aukist umtalsvert. Þessi þróun hefur líka hindrað hann í því að ráðast í séreignarsparnað. Hann á því hreina eign upp á núll krónur.

Niðurstaðan: Húsnæðiseigandinn Jón hefur hagnast mjög en Sigurjón, sem er fastur á leigumarkaði og á ekki kost á fyrirgreiðslu foreldra, er fastur í sömu hjólförum og árið 2011.

Hinn hóp­ur­inn sem setið hefur eftir er ungt fólk. Í grein­ingu Arion banka á hús­næð­is­mark­aðn­um, sem birt var í lok jan­ú­ar, kom fram að Íslend­ingar undir þrí­tugu hefðu setið veru­lega eftir í kaup­mætti á árunum 1990-2014. Kaup­máttur þeirra jókst um níu pró­sent á tíma­bil­inu á meðan að kaup­máttur 30-64 ára jókst um 52 pró­sent á sama tíma.

Helstu fórn­ar­lömb neyð­ar­á­stands­ins á hús­næð­is­mark­aði eru því tveir hópar: fátæk­asti hluti lands­manna og ungt fólk sem kemst ekki inn á mark­að­inn.

Þrösk­uld­arnir sem erfitt er fyrir þetta fólk að yfir­stíga tengj­ast fyrst og fremst skorti á eigin fé. Þ.e. þau eiga ekki fyrir útborgun í íbúð og lágar tekjur þeirra leyfa ekki sparn­að, sér­stak­lega þegar leigu­verð fer stig­hækk­andi og étur alltaf upp stærri hlut­fall af ráð­stöf­un­ar­tekjum þeirra. Ofan á allt er hús­næð­is­verðið auð­vitað alltaf að hækka, sem gerir það að verkum að það þarf alltaf meira og meira af pen­ingum í útborg­un. Til að setja þetta upp í dæmi má benda á að prýði­leg þriggja her­bergja 75 fer­metra íbúð sem kost­aði 20 millj­ónir króna árið 2010 hefði kallað á fjórar millj­ónir króna í útborg­un. Verð á sömu íbúð í dag er um 36,2 millj­ónir króna. Útborg­unin þyrfti að vera 7,2 millj­ónir króna. Í ljósi þess að bestu mögu­legu inn­láns­vextir veita ávöxtun sem er langt undir þeim hækk­unum sem eru á hús­næð­is­mark­aði er ljóst að skipu­legur sparn­aður gerir ekk­ert til þess að hjálpa þessu fólki.

Sam­an­dregið er ómögu­legt fyrir flesta að eign­ast þak yfir höf­uðið án þess að vera með sterkt bak­land sem er til­búið að hjálpa fjár­hags­lega. Rétt­ara er lík­lega að segja bak­land sem hefur bol­magn til þess að hjálpa með útborg­un, þar sem flestir eru til­búnir að hjálpa börn­unum sínum út í lífið með öllum til­tækum ráð­um.

Allt þetta gerir það að verkum að þeir sem hafa eign­ast hús­næði sjá eign sína vaxa stjarn­fræði­lega ár frá ári. Eigið fé Íslend­inga í fast­­eignum þeirra tvö­­fald­að­ist í krónum talið frá lokum árs­ins 2010 til loka árs 2015. Eigið fé þeirra, þ.e. eign miðað við fast­­eigna­­mat að frá­­­dregnum skuld­um, var 1.146 millj­­arðar króna í lok árs 2010 en 2.284 millj­­arðar króna fimm árum síð­­­ar. Þau tíu pró­­sent fjöl­­skyldna sem áttu mest eigið fé í fast­­eignum í lok tíma­bils­ins juku það um tæp­­lega 500 millj­­arða króna á því. Miðað við hækk­anir sem orðið hafa á árinu 2016 og það sem af er árinu 2017 má lík­ast til bæta ein­hverjum hund­ruð millj­arða króna við þessa tölu.

Hinir sem eru ekki í þeirri stöðu að geta keypt sér hús­næði, eru skildir eft­ir. Ríkir geta því eign­ast heim­ili og pen­inga á meðan að fátæk­ari geta það ekki. Stétta­skipt­ingin verður varla skýr­ari.

Leigu­fé­lög sem rekin eru með hagn­að­ar­sjón­ar­miði

Ein ástæða þess að leigu­mark­aður hefur orðið erf­ið­ari á und­an­förnum árum er inn­reið ­leigu­fé­laga ­sem rekin eru með hagn­að­ar­sjón­ar­miði. Þau rök­styðja til­veru sína með því að þau tryggi stöð­ug­leika, hús­næð­is­ör­yggi og lang­tíma­leigu sem skort hafi á leigu­mark­aði þar sem hús­næð­is­eig­andi var að leigja sína eign til leigj­enda, oft til skemmri tíma.

Það má segja að til­urð ­leigu­fé­laga eigi rætur sínar að rekja til spá­kaup­mennsku vegna hækk­andi íbúða­verðs. Aðilar á vegum fjár­mála­fyr­ir­tæk­is­ins Gamma hófu að kaupa upp íbúð­ar­hús­næði í mið­borg og Vest­urbæ Reykja­víkur af miklum móði á árunum 2012 og 2013. 

Í byrjun árs 2014 voru íbúð­irnar orðnar 350 og Gísli Hauks­son, þáver­andi for­stjóri GAMMA, sagði í sam­tali við Kjarn­ann að mark­miðið væri að koma á fót öfl­ug­u ­leigu­fé­lag­i að skand­in­av­ískri fyr­ir­mynd. Hann vildi ekki upp­lýsa hverjir það væru sem hefðu fjár­fest í þessu verk­efni GAMMA en sagði að líf­eyr­is­sjóðir lands­ins væru þar fyr­ir­ferða­mikl­ir.

GAMMA hélt áfram að bæta hratt við íbúðum og keypti nú í öðrum hverfum líka. Til varð Almenna leigu­fé­lag­ið. Þeir sjóðir GAMMA sem standa að baki því högn­uð­ust um 840 millj­ónir króna á árinu 2015. Almenna leigu­fé­lagið tvö­fald­aði sig að stærð í fyrra þegar það keypti Leigu­fé­lagið Klett af Íbúða­lána­sjóði á tíu millj­arða króna. Nú á Almenna leigu­fé­lagið yfir 1.100 íbúðir og ljóst að starf­semin gefur vel af sér. Leigu­verð hefur enda hækkað um 46,5 pró­sent frá því að GAMMA og tengd fyr­ir­tæki hófu inn­reið sína á mark­að­inn.

Ferðamennirnir sem heimsækja Íslands þurfa auðvitað að gista einhversstaðar. Og hluti af húsnæðismarkaðnum fer í þá starfsemi, sem gerir ástandið á honum enn verra.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

GAMMA er þó ekki eini stóri aðil­inn sem hefur séð hagn­að­ar­von í því að kaupa íbúð­ar­hús­næði og setja það í útleigu. Stærsta félagið á þeim mark­aði heitir Heima­vell­ir, sem var stofnað árið 2014. Það hefur marg­fald­ast að stærð á skömmum tíma, og fjór­fald­að­ist meðal ann­ars milli áranna 2015 og 2016. Heima­vellir eiga um 1.800 íbúð­ir. Þær hefur það eign­ast með upp­kaupum á hús­næði og kaupum á heilu ­leigu­fé­lög­un­um. Í nóv­em­ber 2016 var til að mynda til­kynnt um að Leigu­fé­lagið Ása­byggð á Ásbrú, gömlu her­stöð­inni á Mið­nes­heiði, hefði runnið inn í Heima­velli. Ása­byggð átti 716 leigu­í­búð­ir.

Stefnt er að því að skrá Heima­velli á markað en eig­endur eru í dag á sjötta tug. Sumir þeirra eru þó stærri en aðr­ir. Stærstu hlut­hafar Heima­valla eru fyr­ir­tækin Gani ehf. og Snæ­ból ehf. með 9,4 pró­sent hvort. Gani er í eigu Tómasar Krist­jáns­sonar og Snæ­ból er í eigu Finns Reys ­Stef­áns­sonar og Stein­unnar Jóns­dótt­ur. Auk þess eiga þau saman tvö félög, M75 ehf. og Klasa fjár­fest­ingu ehf., sem sam­tals eiga 9,5 pró­sent í Heima­völl­um. Þá á Stál­skip ehf., sem rak ára­tugum saman útgerð en seldi hana fárið 2014 fyrir tíu millj­arða króna, 9,1 pró­sent hlut. Á meðal ann­arra eig­enda er félag sem er að hluta í eigu Kaup­fé­lags Skag­firð­inga. Frétta­tím­inn greindi frá því fyrr í mar­s að hagn­aður Heima­valla hefði verið 2,2 millj­arðar króna í fyrra.

Því er ljóst að þessir tveir stóru milli­liðir fyrir leigu­í­búða og leigj­enda hagn­ast um marga millj­arða króna á ári. Og að sá hagn­aður kemur ein­ungis úr tveimur átt­um: úr vasa leigj­enda vegna hækk­unar á leigu­verði og vegna hækk­unar á bók­færðu virði fast­eigna.

Ferða­menn auka vand­ann

Sá efna­hags­legi við­snún­ingur sem orðið hefur á Íslandi á und­an­förnum árum er fyrst og síð­ast vegna fjölg­unar ferða­manna. Á örfáum árum hefur þeim fjölgað úr 500 þús­und í tvær millj­ón­ir. Á þessu ári er búist við 2,3 millj­ónum slíkra.

Ferða­menn þurfa nátt­úru­lega að gista ein­hvers staðar og þrátt fyrir mikla fjár­fest­ingu í hót­elum þá hefur upp­bygg­ing þeirra á Íslandi ekki haldið í við fjölgun ferða­manna. Hluti íbúða lands­ins, sér­stak­lega á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, fara því í að hýsa ferða­menn. Og standa þar af leið­andi ekki íbúum lands­ins til boða.

Í grein­ing­u ­Arion ­banka frá því í jan­úar sagði að allt að 3.200 íbúðir eða her­bergi séu til leigu á A­ir­bn­b eða í annarri heimagist­ing­u. Í skýrslu Íslands­banka um stöðu ferða­þjón­ustu hér­lendis sem birt var í vik­unni kom fram að þeim A­ir­bn­b ­í­búðum sem eru í útleigu öllum stundum hér­lendis sé að fjölga hratt. Árið 2015 hafi þær verið að með­al­tali 300 en hafi verið 809 í fyrra. Það er aukn­ingu um 509 íbúðir á einu ári. Til sam­an­burðar voru 399 full­gerðar nýjar íbúðir í Reykja­vík á árinu 2016, og fjölgun íbúða í heils­ársút­leigu á A­ir­bn­b því umtals­vert umfram fjölgun nýrra íbúða í Reykja­vík á sama tíma­bili. Íslands­banki telur ruðn­ings­á­hrif á fast­eigna­verð ­vegna A­ir­bn­b vera „veru­leg“. Þ.e. þessi starf­semi hækkar fast­eigna­verð.

Reynt hefur ver­ið, með veikum mætti, að koma í veg fyrir að íbúð­ar­hús­næði hér­lendis not­ist með þessum hætti. Um síð­ustu ára­mót tóku til dæmis gildi lög þar sem kveðið á um tak­­mark­­anir á útleigu íbúða í gegn­um ­síður eins og A­ir­bnb. Ekki verður heim­ilt að leigja út lengur en 90 daga á ári, eða svo lengi sem tekjur eru undir tveimur millj­­ónum króna. Eft­ir­liti með fram­fylgd lag­anna er þó veru­lega ábóta­vant og margir hafa kallað eftir enn frek­ari tak­mörk­unum á úti­legu með þessum hætti, t.d. að hámarks­daga­fjöldi sem heim­il­aður sé verði 30 dag­ar.

Mik­il­vægt sé að for­gangs­raðað sé í þágu þeirra sem hér búa þegar kemur að hús­næð­is­mál­um.

Aðgerðir og verk­leysi rík­is­stjórnar

Sá vandi sem nú er við að etja hefur blasað við árum sam­an, en hefur samt sem áður fengið að áger­ast og jafn­vel verið ýktur með aðgerðum stjórn­valda. Það er ekki fyrr en nú, með skipan aðgerð­ar­hóps fjög­urra ráð­herra, sem rík­is­stjórn hefur nálg­ast þá stað­reynd að þús­undir Íslend­inga glíma við bráða­vanda á hús­næð­is­mark­aði sem neyð­ar­á­stand.

Síð­asta rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks var með eitt áherslu­mál efst á blaði í stefnu­yf­ir­lýs­ingu sinni: Heim­il­in.

Eygló Harðardóttir var ráðherra húsnæðismála á síðasta kjörtímabili. Henni varð lítið ágengt að takast á við neyðina á húsnæðismarkaði.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í reynd sner­ist það áherslu­mál fyrst og fremst um tvö kosn­inga­mál Fram­sókn­ar­flokks­ins. Annað var leið­rétt­ing á verð­tryggðum skuldum og hitt afnám verð­trygg­ing­ar. Fyrra málið var útfært þannig að 72,2 millj­arðar króna voru milli­færðir út rík­is­sjóði til hluta þeirra Íslend­inga sem voru með verð­tryggð lán á árunum 2008 og 2009. Í skýrslu sem birt var í byrjun þessa árs kom fram að tekju­hæstu tíu pró­sent lands­manna fengu 30 pró­sent af upp­hæð­inni og eign­ar­meiri hluti þjóð­ar­innar fékk 52 millj­arða króna í sinn hlut. Pen­ing­arnir fóru því aðal­lega til ríkra sem þurftu ekki á þeim að halda. Og ullu ruðn­ings­á­hrifum á fast­eigna­mark­aði sem gera það að verkum að staða fátækra og ungra er verri fyrir vik­ið.

Afnám verð­trygg­ingar féll síðan um sjálft sig þar sem Íslend­ingar vilja miklu frekar taka verð­tryggð lán en óverð­tryggð. Til­raun til að banna örlitlum hluta lands­manna að taka 40 ára verð­tryggð jafn­greiðslu­lán – þeim hluta sem myndi hvort eð er aldrei taka slík lán – var nánast hleg­in út af svið­inu og frum­varp þess efnis varð aldrei að lög­um.

Rík­is­stjórnin lagði líka fram frum­varp um stuðn­ing til kaupa á fyrstu íbúð, sem varð að lög­um. Í því fólst að fyrstu íbúða­kaup­endur myndu fá 15 millj­arða króna skatt­afslátt á tíu ára tíma­bili gegn því að nota sér­eigna­sparnað sinn í safna fyrir íbúð. Vert er að taka fram að þeir sem safna sér­eign eru fyrst og síð­ast þeir sem hafa hærri tekjur eða þeir sem eiga for­eldra sem eru með hærri tekj­ur. Fyrsta fast­eign er því úrræði sem nýt­ist best börnum ríkra.

Eygló Harð­ar­dótt­ir, félags- og hús­næð­is­mála­ráð­herra í þeirri rík­is­stjórn, boð­aði frum­vörp um stór­tækar aðgerðir á hús­næð­is­mark­aði haustið 2014. Við tók margra ára rifr­ildi við Sjálf­stæð­is­flokk­inn um hvað aðgerð­irnar mættu kosta og á end­anum voru einu umbæt­urnar sem sam­þykktar voru frum­varp um almennar íbúðir og frum­varp um hús­næð­is­bæt­ur. Þau frum­vörp voru hins vegar ekki sam­þykkt fyrr en í byrjun júní 2016, eftir margra ára aðgerð­ar­leysi.

Sam­an­dregið hafa þessir fjórir sam­verk­andi þætt­ir: skortur á fram­boði, til­urð risa­stórra leigu­fé­laga sem rekin eru í hagn­að­ar­skyni, íbúðir sem leigðar ferða­mönnum og sam­bland aðgerða og verk­leysis síð­ustu rík­is­stjórnar stuðlað að þeirri stöðu sem er uppi í dag. Þ.e. algjöru neyð­ar­á­standi á hús­næð­is­mark­aði.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar