„Ég held að það sé öllum morgunljóst að það er einhvers staðar fyrir hendi vitneskja um hver eigi þetta félag. En stóra spurningin er hvort sá eða sú það veit stíga fram og upplýsa það.“ Þetta segir Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem sat í nefnd sem rannsakaði aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003.
Félagið sem Kjartan talar um er Dekhill Advisors Limited, sem fékk 2,9 milljarða króna greidda árið 2006 vegna baksamninga sem gerðir voru við kaupin. Þetta kemur fram í nýjasta þætti Kjarnans á Hringbraut, þar sem kaupin á Búnaðarbankanum og rannsókn á þeim eru til umfjöllunar. Þátturinn er frumsýndur klukkan 21:30 í kvöld.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnarsegir að allar líkur standi til þess að „Kaupþing sjálft eða aðilar því tengdir hafi verið raunverulegir eigendur Dekhill Advisors eða notið þeirra fjármuna sem þangað runnu“. Allir stjórnendur og starfsmenn Kaupþings sem komu að málinu hafa hins vegar neitað að hafa hagnast fjárhagslega á því í svörum sínum til nefndarinnar.
Kjartan segir að þetta sé ekki fullyrðing um hverjir eigendurnir séu, enda liggi að honum vitandi ekki fyrir neinar skýrar og afdráttarlausar upplýsingar um hver eigi félagið né hverjir hafi notið hagsbóta af þeim fjármunum sem þangað fóru. „ Það er kannski næsta verkefni ykkar fjölmiðlamanna og fleiri aðila úti í þessu samfélagi að upplýsa um það.“