Myntráð er sú róttæka lausn sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sér fyrir sér í gjaldmiðilsmálum. Hins vegar sé flokkur hans sá eini með þá stefnu. Þetta kom fram í máli Benedikts í svörum við óundirbúnum fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, á Alþingi í morgun.
Katrín gerði ummæli fjármálaráðherra um helgina að viðfangsefni. „Hæstvirtur fjármálaráðherra sagði í fjölmiðlum í fyrradag að staðan í gjaldmiðilsmálum væri svo alvarleg að við yrðum að horfa á mjög róttækar lausnir.“ Hún velti því fyrir sér hvaða aðgerðir Benedikt væri að vísa í.
„Í ljósi þess að við þekkjum stefnu hæstvirts ráðherra og hans flokks koma tvær róttækar lausnir í huga og mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra: Er hann að tala fyrir fastgengisstefnu með myntráði eins og við þekkjum annars staðar frá? Er hann að tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru eða upptöku einhvers annars gjaldmiðils? Hvaða róttæku lausnir á hæstvirtur ráðherra við?“ spurði Katrín.
Benedikt sagði rétt að hann og ýmsir aðrir hefðu komið auga á að það væri grafalvarlegt mál þegar gjaldmiðill breyti svo hratt um gengi eins og íslenska krónan hefði gert síðustu tvö ár.
„Við þekkjum hvað gert hefur verið, að Seðlabankinn hefur verið með uppkaup, en hann hefur lýst því yfir að hann ætli að draga úr inngripum. Við höfum afnumið höft á fjármagnsflæði þannig að nú geta íslensk fyrirtæki, einstaklingar og lífeyrissjóðir fjárfest erlendis og keypt gjaldeyri, keypt hlutabréf og annað. Þó að ég virði vissulega sjálfstæði peningastefnunefndar Seðlabankans hef ég talið að eitt af því sem máli skipti væri að vaxtamunur á milli Íslands og útlanda væri sem allra minnstur, þannig að ég hef hvatt til vaxtalækkana. Fleiri aðgerðir má svo sem nefna en þessar eru þær helstu. Ég hef reyndar líka hvatt lífeyrissjóðina til þess að auka fjárfestingar sínar í útlöndum,“ sagði hann í fyrra svari sínu.
Katrín kom í ræðustól í annað sinn og sagði ekki duga að telja upp það sem þegar hefði verið gert. „Hann mætti í viðtal í fyrradag og sagði að nú þyrfti róttækar lausnir til þess að koma böndum á gjaldmiðilinn. Hann mætti líka í annað viðtal í evrubol, væntanlega ekki vegna þess að ekkert annað væri hreint heima hjá honum. Hæstvirtur ráðherra er að senda ákveðin skilaboð,“ sagði Katrín. Ráðherrann þyrfti að tala skýrt við Alþingi Íslendinga um það hvaða lausnir hann eigi við.
Benedikt sagði málið mjög flókið. „Það er ekkert leyndarmál að stefna Viðreisnar fyrir kosningar var að skoða myntráð. Það er leið sem við höfum verið að kynna fyrir öðrum og ég veit að margir hafa skoðað af áhuga.“ Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar væri svo talað um nefnd um umhverfi peningastefnunnar þar sem sköpuð verði ný peningastefna sem stefni að því að draga úr sveiflum á gengi krónunnar.
„Það er rétt að í myntráði felst að gengi gjaldmiðilsins, krónunnar, er tengt við erlendan gjaldmiðil og þar sé ég þá róttæku lausn sem ég hef talað um.“
Sigurður Ingi spurði Benedikt einnig um þessi mál, og sagði ráðherrann ekki þora að svara mjög skýrt um málið. Róttæka lausnin væri augljóslega myntráð og um það sé engin samstaða í ríkisstjórninni. „Ríkisstjórnarsamstarfið er í uppnámi.“
Benedikt sagði alveg rétt hjá Sigurði Inga að hugmyndin um myntráð eða aðra fasttengingu krónunnar við annað hvort ákveðna erlenda mynt eða myntkörfu væri ekki stefna nema eins flokks, Viðreisnar. Hann hefði hins vegar orðið var við það að margir þingmenn hefðu áhuga á að kynnast málinu betur. „Það vona ég að starf þessarar nefndar muni leiða til þess að betri áhugi vakni á því.“