Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hefur boðað stofnun Framfarafélagsins. Um er að ræða félag sem á að stuðla að framförum á öllum sviðum samfélagsins og að því kemur fólk alls staðar að úr samfélaginu. Hann vill ekki greina frá því hverjir aðrir komi að stofnun félagsins en segir að það sé hópur Framsóknarmanna og fólks annars staðar að. Framhaldsstofnfundur Framfarafélagsins verður klukkan 11 á laugardag í Rúgbrauðsgerðinni en félagið var stofnað á fæðingardegi Jónasar frá Hriflu, þann 1. maí síðastliðinn. Frá þessu er greint á mbl.is.
Sigmundur Davíð segir að félagið sé nokkurs konar blanda af hugveitu og þjóðmálafélagi og að tilgangur þess sé að „skapa vettvang fyrir frjálsa umræðu fyrir hin ýmsu samfélagsmál, þar sem hægt verður að koma á framfæri hugmyndum og lausnum við þeim vandamálum sem samfélagið stendur frammi fyrir og hvernig við getum nýtt sem best þau tækifæri sem okkur bjóðast.“
Þar segir Sigmundur Davíð að hann sé alls ekki að stofna nýjan stjórnmálaflokk en að hann vonist til þess að stjórnmálaflokkar geti nýtt sér það sem verður til á vettvangi félagsins. Sigmundur Davíð vonast sérstaklega til þess að Framsóknarflokkurinn geti nýtt sér það. Flokkurinn sé laskaður eftir innri átök síðustu mánaða og ósætti og skortur á samstöðu standi í vegi fyrir því að flokkurinn geti þróast áfram og „orðið að sterku hreyfiafli í íslensku samfélagi.“