Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, er andvíg olíuleit á Drekasvæðinu. Þá er hún einnig andvíg því að sérleyfi til olíuleitar verði framlengt eftir að það rennur út árið 2026, en segir þó að leyfisveitingar vegna slíkra leyfa falli ekki undir verksvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Þetta kemur fram í svari Bjartar við fyrirspurn frá Hildi Knútsdóttur, varaþingmanni Vinstri grænna, um olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
Hildur spurði Björtu einnig um það hvort hún teldi að olíuvinnsla í íslenskri lögsögu geti samræmst þeirri stefnu að Íslendingar verði forystuþjóð í loftslagsmálum, og um það hvernig slík starfsemi félli að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem stjórnvöld hafa sagst ætla að gera.
Björt segir Ísland lengi hafa talið sig vera forystuþjóð í loftslagsmálum, einkum byggt á því að nær öll orka til rafmagnsframleiðslu og hitunar komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. „Nú eru blikur á lofti, þar sem spár benda til mikillar aukningar losunar og að Ísland standi ekki að óbreyttu við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni til 2020 eða Parísarsamningnum til 2030. Ráðherra telur engu að síður að Ísland geti áfram talið sig í fararbroddi ef metnaður er aukinn og meiri kraftur settur m.a. í orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi, loftslagsvæna nýsköpun og bindingu kolefnis úr andrúmslofti,“ segir í svari ráðherra.
Olíuvinnsla í íslenskri lögsögu myndi hins vegar gjörbreyta þessari mynd að mati ráðherra og sérstaða Íslands varðandi mikla nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hyrfi. „Ísland gæti auðvitað eflt aðgerðir gegn loftslagsbreytingum ef olíuvinnsla hæfist og nýtt til þess m.a. tekjur af vinnslu olíu. Mörg olíuvinnsluríki verja miklum fjárhæðum til loftslagsmála, svo sem Noregur. Það er þó ljóst að öll ásýnd Íslands í loftslagsmálum og forsendur í aðgerðaáætlun breyttist verulega með vinnslu olíu. Það væri afar erfitt að halda því fram að Íslendingar væru forystuþjóð í loftslagsmálum í því tilfelli. Þess ber líka að geta að olíuvinnsla á Drekasvæðinu fæli alltaf í sér hættu fyrir lífríki hafsins og sjávarútveg, eins þótt afar strangar kröfur verði gerðar til umhverfis- og öryggismála fyrir slíka vinnslu.“