Helgi Bergs, sem stýrði fjárfestingabankastarfsemi Kaupþings frá London á árunum 2005 til 2008, hefur verið ráðinn til að stýra starfsemi GAMMA í Sviss. Fyrirtækið hefur hug á því að opna skrifstofu þar síðar á þessu ári. Helgi mun einnig vinna í fyrirtækjaráðgjöf GAMMA sem þjónustar viðskiptavini fyrirtækisins í Reykjavík, London, New York og Sviss.
Í tilkynningu frá GAMMA segir að Helgi hafi áratuga reynslu af alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Auk starfa sinna fyrir Kaupþing hefur hann starfað hjá Iceland Seafood International. Undanfarin ár hefur hann stýrt miðlunarstarfsemi verðbréfafyrirtækisins Birwood í London.
Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA, segir að það sé mikið ánægjuefni að fá reynslumikinn mann á borð við Helga til að stýra starfseminni í Sviss. „Með öflugri fyrirtækjaráðgjöf í fjórum löndum mun GAMMA nú geta boðið íslenskum fyrirtækjum og fjárfestum upp á alhliða ráðgjöf varðandi erlend fyrirtækjaverkefni, erlenda fjármögnun og samskipti við erlenda fjárfesta.“