„Nú hefur fengist staðfesting á því sem Píratar óttuðust allt frá því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram; áætlun ríkisstjórnarinnar er í raun bara ágiskun, fjármunum er skipt niður á málefnasvið ráðuneyta að því er virðist handahófskennt.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Pírötum. Í henni er fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022, sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram, harðlega gagnrýnd. „Með þessu er verið að biðja Alþingi um að taka ákvörðun án þess að hafa forsendurnar. Á nýafstöðnum fundi fulltrúa Pírata í fjárlaganefnd með formanni fjárlaganefndar og fulltrúum fjármálaráðuneytisins kom fram að ekki væri hægt að svara upplýsingabeiðni Pírata um tölur og gögn er liggja að baki fjármálaáætluninni. Ástæðan er einföld: Þessi gögn eru ekki til,“ segir í tilkynningu Pírata.
Í fjármálaáætluninni er meðal annars horft til þess að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, frá og með 1. júlí á næsta ári, úr 11 prósent í 22,5 prósent. Ekki er víst að meirihlutastuðningur verði við það á þingi, meðal annars vegna andstöðu í hópi Sjálfstæðismanna. Áætlunin markar ramma opinberra fjármála, horft til fimm ára, og hefur Benedikt sagt að einblínt verði á að borga niður skuldir ríkisins og forgangsraða með almannahagsmuni að leiðarljósi. „Ferðaþjónusta hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Hún hefur á þróunarskeiði sínu notið þess að vera í lægra skattþrepi virðisaukaskatts. Skattahagræði vegna þessa hefur verið metið um 16 milljarðar króna ef litið er á gistingu, fólksflutninga og afþreyingu, en auk þess milli fimm og sex milljarðar króna í veitingarekstri. Nú þegar greinin er orðin stærsta gjaldeyrisaflandi grein landsins og vex um tugi prósenta á hverju ári er eðlilegt að virðisaukaskattur sé sá sami í greininni og í öðrum geirum,“ sagði Benedikt meðal annars í ítarlegri grein um fjármálaáætlunina á vef Kjarnans.
Píratar segja í tilkynningu sinni, að ekki sé hægt að samþykkja fjármálaáætlun þar sem ekki hefur verið lögð fram greining á fjárþörf stofnana. „Takmörkuð greining á einstaka útgjaldaliðum eða fjárþörf einstakra stofnana eða verkefna liggur fyrir. Það má því leggja þessi vinnubrögð að jöfnu við að fjármálaráðuneytið hafi dregið skiptingu fjármuna í fjármálaáætlun upp úr hatti. Ekkert tillit hefur verið tekið til raunverulegrar fjárþarfar stofnana við þessa ágiskun, ófullnægjandi gögn liggja fyrir um kostnað einstakra verkefna sem fjármálaáætlun setur á herðar einstakra stofnana og er þeim því haldið í óvissu um hvort fjármunir fáist í þau verkefni sem þeim hefur verið falið. Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir faglegri úttekt sem undirstöðu fjármálaáætlunar á meðan stjórnarskráin felur löggjafanum fjárveitingarvaldið. Fjármálaáætlun skilur Alþingi eftir í fullkominni óvissu um hvernig framkvæmdarvaldið hyggst ráðstafa fjármunum almennings. Því má leiða líkur að því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar standist hvorki lög um opinber fjármál né stjórnarskrá,“ segir í tilkynningunni.